150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta kom til umræðu og það er alveg kýrskýrt að starfsmenn sem ganga inn í þetta úrræði með sínum vinnuveitanda njóta allra kjarasamningsbundinna réttinda sem miðast við stöðu þeirra áður en þeir gengu inn í þetta úrræði. Það er alveg tryggt. Ef til uppsagnar kemur hugsanlega að loknu þessu úrræði munu réttindi þeirra í uppsagnarfresti miðast við stöðu þeirra áður en þeir fóru í lækkað starfshlutfall. Ég held að það sé brýnt að það sé alveg á hreinu. Það er mikilvægt að kynna þetta vel fyrir launafólki, eins og ég nefndi í minni ræðu, á fleiri tungumálum en íslensku því að ferðaþjónustan hefur að stórum hluta byggst á fólki af erlendum uppruna sem talar ekki endilega íslensku. Það er brýnt, bæði hjá vinnuveitendum, Vinnumálastofnun og verkalýðsfélögum, að kynna fólki vel réttindi þess í þessum málum í kjölfar þess að frumvarpið verður samþykkt, vonandi í dag. Það er algjörlega skýrt að þau réttindi miðast við stöðu launamanns áður en þetta úrræði varð virkt.