Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir beiðni um að eiga við mig orðastað hér, mér þykir þetta afar skemmtileg tilbreytni í þingstörfunum. Fyrst vil ég segja að ég tek heils hugar undir, og ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og víðar, að þessi sala gekk ekki eftir eins og best hefði orðið. Við erum, held ég, alveg sammála um það og ekki bara ég og hv. þingmaður heldur fleiri þingmenn í þessum sal. Því er afar brýnt, svo að ég segi það nú einu sinni enn, að velta við hverjum einasta steini í þessu máli. Ég bíð hins vegar, eins og önnur hér í þessum sal, eftir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins í þeirra vinnu, hvað kemur út úr þeirri skoðun og rannsókn sem er þar í gangi. Ég hef haldið því til haga að Ríkisendurskoðun er eftirlitsstofnun þingsins sem skiptir máli að við nýtum okkur. Við treystum henni, eins og fram hefur komið í endalausum ræðum, og verður mikilvægt að fá þá niðurstöðu fyrr en síðar.

Ég held ég hafi vakið athygli og máls á því í ræðustól að rannsóknarnefnd, sé henni komið á fót, þarf alltaf lengri tíma. En af því að hv. þingmaður spyr hvort ég telji fara vel á því að stjórnvöld kalli eftir lögfræðiálitum frá lögmannsstofu þá get ég ekki tekið afstöðu til þess hér, svo að það sé sagt. En leiði rannsókn Ríkisendurskoðunar í ljós, og eftir atvikum rannsókn Fjármálaeftirlitsins, að nauðsynlegt sé að velta við fleiri steinum í þessu sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefji undirbúning við þá vinnu eins og ég hef áður sagt. En ég veit að hv. nefnd er að bíða eftir þessari niðurstöðu rétt eins og við hin.