154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

umræðan um opin landamæri.

[15:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og að sjálfsögðu fyrir áhugann á flokksráðsfundi Vinstri grænna. Þau orð sem ég lét falla á fundinum eru eitthvað sem ég hef pælt talsvert mikið í, þ.e. að mér hefur fundist umræðan um útlendinga og innflytjendur á Íslandi hafa verið harðari heldur en hún hefur verið oft áður og ég hef áhyggjur af því að það séu að dragast upp andstæðir pólar, að skautunin sé að verða meiri. Þess vegna lét ég þessi orð falla. Auðvitað er hér verið að tala um einhverja samfellu á milli þess að vilja fá sem fæsta útlendinga og þess að vilja fá sem flesta og ég orðaði það með þessum hætti. Það er auðvitað það sem hér er rætt um. Ég held að það ætti ekkert að vera viðkvæmt að ræða það á þessum nótum og bara ágætt að hv. þingmaður taki þetta upp. Ég legg áherslu á að hér er verið að tala um samfellu frá því að vilja taka á móti sem allra flestum og sem allra fæstum. Ég held að þessi umræða sem hefur skapast hér í samfélaginu á undanförnum mánuðum, jafnvel á örfáum árum og hefur verið að byggjast upp ekki síst núna á síðastliðnu ári, sé alls ekki góð fyrir útlendinga eða innflytjendur á Íslandi. Þess vegna er sú heildarsýn sem ríkisstjórnin kom fram með fyrir hálfum mánuði síðan mikilvæg, þar sem við erum að horfa á allt það ferli frá því að útlendingur kemur hingað, sama með hvaða móti hann kemur, og þangað til að útlendingurinn nær fótfestu í íslensku samfélagi. Það er mikilvægt að horfa á hlutina þannig, ekki síst vegna þess að við erum að horfa á stóraukna stéttskiptingu og ójöfnuð í landinu sem má m.a. sjá hjá hópi innflytjenda. Það er eitthvað sem við verðum að vinna gegn. Þessi heildarsýn og þær aðgerðir sem settar eru fram í tengslum við hana eru ætlaðar til þess (Forseti hringir.) m.a. að vinna gegn slíkri stéttskiptingu og vinna gegn slíkum ójöfnuði.