131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.

94. mál
[14:01]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu. Ég tel að hún sé gagnleg og þörf og ástæða til að taka hana upp á hinu háa Alþingi.

Ég vil hins vegar hafna því að þeir aðilar sem hér hafa verið nefndir til sögunnar, bæði Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið, séu vanbúnir til að sinna eftirliti sínu og tel að það ágæta fólk sem þar starfar hafi gert það af mikilli kostgæfni.

Ég vil svara fyrirspurn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um hvort mismunur er á störfum manna eftir því hvort þeir eru erlendir eða innlendir og eftirliti með þeim. Svo er að sjálfsögðu alls ekki eins og fram kom í máli mínu áðan né heldur eftir því hvar þeir vinna, á Kárahnjúkum eða annars staðar í landinu. Þar gilda að sjálfsögðu sömu reglur og sömu lög.

Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að rifja upp ummæli mín hér frá því fyrir ári síðan. Mér gafst ekki tóm til þess í fyrri ræðu minni. Að sjálfsögðu er það eitt hlutverk þeirrar nefndar sem ég minntist á áðan að kanna hvort ástæða er til að setja sérstök lög um starfsmannaleigur eins og ég kom inn á.

Ég vil líka upplýsa um það, hæstv. forseti, að ég hef haft frumkvæði að því, bæði á vettvangi evrópskra ráðherra sem um þessi mál fjalla og enn fremur á vettvangi Norðurlandasamstarfsins að málefni starfsmannaleigna og félagsleg undirboð og annað sem hér hefur verið nefnt sé tekið til umfjöllunar.

Eins og ég sagði í svari mínu áðan legg ég á það sérstaka áherslu að viðhalda því vinnumarkaðsumhverfi sem við þekkjum og hefur verið að festa sig í sessi á undanförnum 100 árum eða svo. Það byggir m.a. á þátttöku launamanna í stéttarfélögum en raunin er sú að mikill meiri hluti launafólks eru félagsmenn í stéttarfélögum hér á landi. (Gripið fram í: Ertu að tala um sjómenn ...?) Stéttarfélögin ættu því að vera ágætlega í stakk búin til að takast á við hið nýja umhverfi sem við erum að horfast í augu við og hv. þm. veit eins og ég að hér erum við ekki að ræða um sjómenn sérstaklega enda væri þá annar ráðherra til svara.