141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

málstefna Stjórnarráðsins.

75. mál
[16:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í lögum nr. 115/2011, frá 23. september 2011 — þessi lög eru því rétt rúmlega ársgömul — er grein, reyndar kafli sem fjallar um málstefnu og í þeim kafla er ein grein, 26. gr. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra mótar Stjórnarráðinu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi Stjórnarráðsins. Enn fremur skal koma fram hver gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt manna af erlendum uppruna til samskipta við Stjórnarráðið á annarri tungu en íslensku.“

Þetta var fyrri málsgreinin en síðari málsgreinin hljóðar svo, og er það í samræmi við önnur lög sem sett voru nokkru áður, með leyfi forseta:

„Mál það sem er notað í starfsemi Stjórnarráðsins eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt.“

Til þess er þingið að setja lög og fylgjast með því að eftir þeim sé farið, til þess eru ráðherrarnir að framkvæma það sem þeim er falið í lögum og nú er spurt: Hvernig hefur gengið á því ári sem liðið er að móta Stjórnarráðinu málstefnu í samræmi við þessa grein hinna tilteknu laga?