145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[15:16]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þetta mikilvæga mál. Þetta er mál sem hefur verið mikið til umfjöllunar á undanförnum vikum og mánuðum, ef ekki árum, bæði hérlendis og erlendis. Nú er komin upp sú staða að það er hreinlega flóttamannakrísa í Evrópu og ekki bara í Evrópu heldur einnig í löndunum í kring og einkum Sýrlandi.

Þetta mikilvæga mál er mjög persónulegt mál fyrir mig en þegar ég var á ferð í Armeníu 2012 þá kom ég við í Jerevan þar sem ég kynntist sýrlenskum flóttamönnum. Þetta var árið 2012 og það eru þrjú ár síðan þetta fólk flúði land og það hefur ekki náð að koma öruggt til Sýrlands síðan þá. Þau voru reyndar það heppin að fá fjölskyldu sína til að koma til sín en það er einungis vegna þess að þau voru af þriðju kynslóð flóttamanna, þetta voru armenskir Sýrlendingar. Þetta var fólk sem hafði þurft að flýja heimahaga sína frá Tyrklandi niður til Sýrlands í upphafi 20. aldar vegna þjóðarmorða sem áttu sér stað þá. Armenía er pínulítið land og það hefur tekið á móti mörgum Sýrlendingum, aðallega af armenskum uppruna, til þess að bjarga þeim frá því ástandi sem þar ríkir. Armenía er land sem hefur ekki mikið á milli handanna, það er sárafátækt, en það er samt búið að gera meira en Ísland nokkurn tíma.

Ég held að það sé best, með leyfi forseta, að gefa vini mínum SarKiss Rshdouni orðið en ég var að spyrja hann áðan hvað hann vildi segja íslensku þjóðinni og hvað hann vildi segja Alþingi Íslendinga um stöðuna sem er komin upp. SarKiss vill segja Alþingi Íslendinga að ekki séu allir Sýrlendingar hryðjuverkamenn, ekki séu allir Sýrlendingar róttækir salafistamúslimar. Þar eigi heima margir minnihlutahópar og sem hafa komið þangað, þetta er ekki bara ein þjóð, þetta eru margar þjóðir sem eru þarna í neyð. Sýrland sem land hefur tekið á móti flóttamönnum í gegnum tíðina og SarKiss vill trúa því að núna sé komið að Sýrlendingum að fá greitt til baka fyrir þá hjálp og þá gestrisni sem þeir hafa veitt öðru fólki í gegnum tíðina. Hann vill líka meina að hluti af flóttamannavandamálinu sé hvernig vestrænu löndin taka á móti þessum straumi flóttamanna, að við séum að loka á allar löglegar leiðir fyrir þetta fólk til að komast að, til að sækja löglega um hæli. Það er verið að loka landamærum, það er verið að koma þessu fólki fyrir í útrýmingarbúðum — eða ekki beinlínis útrýmingarbúðum enn þá þó að aðstaðan sé alveg hræðileg þarna og það er t.d. bara tímaspursmál hvenær kólera kemur upp í sumum búðum í Ungverjalandi, en hluti af vandamálinu er að flóttafólkið getur hvergi sótt um hæli löglega. Vestræn lönd þurfa að taka á móti því, bjarga þeim og hjálpa þar sem það er ekki mögulegt að setja alþjóðlegan þrýsting á núverandi stjórnvöld í Sýrlandi. Það er sama hvort maður kallar þetta flóttamannakrísu eða þjóðflutninga í Sýrlandi. Þar er stríð og það er ekkert nýtt, það hefur geisað í um það bil fjögur ár, ef ekki lengur og mikið til komið vegna íhlutunar vestrænna ríkja.

Ef við viljum fara á þann háa hest að fordæma þjóðarmorð, heimsstyrjaldir eða ómannúðlega stefnu ákveðinnar ríkisstjórnar þá er tækifærið til að sýna það núna í verki, ekki bara í orði heldur einnig á borði. Íslendingar hafa sýnt vilja sinn til að gera það og núna er bara spurning um að framkvæma. Það er hægt að gera það núna, það er hægt að gera það strax. Ég hvet þetta þing eindregið og hæstv. innanríkisráðherra til að taka þátt í þessu og leyfa þeim Íslendingum, sem hafa tækifæri til til að hjálpa þessu fólki, til að taka á móti því og þar af leiðandi sýna í verki það sem okkur finnst.