145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fæðingar- og foreldraorlof.

25. mál
[16:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega, en vil taka undir það að mér finnst þetta afar mikilvægt réttlætismál og við erum örugglega mörg í þeirri stöðu að þekkja fólk sem gengið hefur í gegnum ýmislegt, m.a. andvanafæðingu. Mér fannst þessi orð sem félagi okkar Guðbjartur Hannesson skrifaði og hér voru lesin upp eiga afskaplega vel við. Það er nefnilega þannig eins og hér var rakið að þeir sem ganga í gegnum þetta upplifa áfall en líka stórfjölskyldan, þetta snýr ekki bara að viðkomandi einstaklingum sem ganga í gegnum það að missa barn heldur líka stórfjölskyldunni. Umræðan er að opnast og hefur auðvitað opnast en eins og hér var sagt var þetta kannski bara þagað í hel áður fyrr, fólk ræddi þetta almennt ekki, en hluttekningin er mun meiri en var oft á tíðum áður fyrr.

Ég held að við getum togast á um það hvort orlofið eigi að vera níu mánuðir eða sex mánuðir eða eitthvað slíkt, fólk getur fest sig í því, en fyrst og fremst held ég það eigi að hugsa til andlegs ástands viðkomandi. Eins og framsögumaður sagði þá standa foreldrarnir eftir með tóma vöggu, búnir að búa sig undir komu þessa litla einstaklings og ekkert verður til þess að fylla það tómarúm, en það er þá í það minnsta verið að gefa fólki almennilegt tækifæri til þess, kjósi það svo að þiggja fæðingarstyrkinn þennan tíma. Það er í rauninni svolítið sérstakt ef við veltum því fyrir okkur að þessi mismunur sé í kerfinu, annars vegar er það fæðing andvana barns eftir þó þetta langa meðgöngu, eða fæðing sem er nákvæmlega á 22. viku og svo deyr það viku seinna, en kerfið höndlar það með mjög mismunandi hætti. Það nær náttúrlega ekki nokkru tali.

Ég ætlaði ekki að ræða þetta mikið, ég vildi koma hér upp og taka undir þetta mál af því þetta er eitt af mörgum réttlætis- og sanngirnismálunum sem ég held að við þurfum að reyna að fá góða umræðu um, bæði hér í þingsal og í nefndinni. Vonandi tekst okkur að breyta lagaumhverfinu.