148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frumvarpið sem hér um ræðir felur eingöngu í sér hækkanir skatta og gjalda. Hvergi er reynt að innleiða nýja og jákvæða hvata en þess í stað aukið á neikvæða skattlagningu og hún jafnvel hækkuð verulega, eins og í tilviki kolefnisgjalds þar sem hækkunin er 50% en þó eingöngu byrjunin, að því er sagt er. Gjald, sem mun ekki hafa nein áhrif á útblásturinn. Hins vegar mun skattlagningin auka útgjöld heimilanna og leggjast þyngst á þá sem lægstar tekjur hafa hlutfallslega.

Við munum greiða atkvæði gegn öllum gjaldahækkunum enda eru þessar hækkanir ekki í samræmi við þá stefnu sem stjórnvöld höfðu mótað um að ríkið hætti að vera leiðandi í því að keyra áfram verðtrygginguna. Ríkið á þvert á móti að reyna að halda aftur af verðbólgu og gera okkur þannig kleift að komast út úr verðtryggingarfyrirkomulaginu.

Loks vil ég nefna það sérstaklega, herra forseti, að þetta frumvarp er and-nýsköpunarfrumvarp. Það leggst sérstaklega þungt á hvern þann sem gæti dottið í hug að reyna að skapa eitthvað nýtt.