Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér kom fram. Ég las einmitt þetta svar hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þingmanns af athygli. Það er auðvitað ákveðin rökvilla þarna. Það er einhvern veginn horft fram hjá því að þegar kemur að glímunni við verðbólgu þá er það auðvitað aðhaldsstig ríkisfjármálanna í heild sinni sem skiptir máli. Ég man t.d. ekki til þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi verið gagnrýnd sérstaklega af hægri mönnum og fólkinu sem vildi aðhald eftir hrun fyrir það að vaxtabætur voru alveg snarhækkaðar til að verja skuldsett heimili. Þeim var beint í auknum mæli til tekjulægstu heimilanna en svo var aðhaldsstigið tekið út á öðrum stöðum, sérstaklega gagnvart tekjuhærri hópunum. Það þarf auðvitað að horfa á aðhaldsstigið í heild. Þetta er ofboðslega ódýr afsökun fyrir því að halda áfram að láta vaxtabætur skerðast alveg út í hörgul.

En ég vildi í seinni ræðu minni klára umfjöllun mína um þetta þingmál. Ég var rétt kominn þangað í málinu þar sem við tölum um barnabætur, barnabótakerfið, og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þar séu fjárhæðir og skerðingarmörk hækkuð til að mæta sérstaklega hækkunum á nauðsynjavörur fyrir fjölskyldur. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir rýrnandi barnabótum og óbreyttum skerðingarmörkum og við þetta verður ekki unað. Stefna Samfylkingarinnar er skýr um að á Íslandi eigi að vera við lýði sterkt almennt barnabótakerfi fyrir lágtekjufólk og millitekjufólk eins og á hinum Norðurlöndunum þannig að það verði að draga mjög rækilega úr tekjutengingunum í kerfinu, þetta eigi að vera mjög almennur stuðningur. Og núna þegar barnafjölskyldur finna fyrir hækkandi greiðslubyrði og rýrnandi kaupmætti er það allra minnsta sem við getum gert að láta viðmiðunarmörkin fylgja verðlagi, svo væntanlega kauphækkununum eftir að það verður verið samið um launaþróun næstu ára.

Í fjórða lagi leggjum við til í þessari þingsályktunartillögu að það verði farin allt önnur leið í tekjuöflun heldur en ríkisstjórnin boðar. Við viljum að það verði ráðist í sértækar aðgerðir til að sporna við þenslu, auka jöfnuð í samfélaginu og bæta afkomu ríkissjóðs. Við viljum að það verði girt fyrir að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur. Þetta getur skilað ríkissjóði allt að 8 milljörðum kr. að mati hagdeildar ASÍ. Við viljum leggja viðbótarskatt á fjármagnstekjur vegna stöðunnar í efnahagslífinu og vegna hinnar ójöfnu dreifingar aukinna ráðstöfunartekna sem við höfum horft upp á núna frá þessum faraldri. Loks viljum við leggja sérstakt álag á veiðigjöld stærstu útgerðarfyrirtækjanna, þeirra sem halda á mestum fiskveiðikvóta.

Með þeim aðgerðum sem ég hef farið yfir, og þetta er seinni ræðan og beint framhald af þeirri fyrri, erum við að slá tvær flugur í einu höggi. Annars vegar að verja heimilin með mjög markvissum hætti fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum og hins vegar eru þetta allt saman aðgerðir sem eru til þess fallnar að berja niður verðbólguna. Þingmenn stjórnarliðsins tala gjarnan eins og við í Samfylkingunni viljum eyða og eyða en staðreyndin er sú að leið Samfylkingarinnar felur í sér meira aðhald í ríkisfjármálum heldur en fjármálapólitík ríkisstjórnarinnar. Þetta er bara staðreynd. Þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin boðar, gjaldahækkanirnar á almenningi, eru þess eðlis að þar munu leka beint út í verðlagið. Hið sama gildir ekki um tekjuöflunartillögur okkar og auðvitað enn síður um leigubremsuna sem beinlínis spornar gegn hækkun vísitölu neysluverðs með beinum hætti. Á endanum er þetta bara þannig að sú efnahagspólitík sem er verið að reka elur á sundrungu, grefur undan samstöðu. Við verðum að skipta um kúrs. Sú leið sem hér er lögð fram er sanngjörn og skynsamleg. Þetta er góð hagstjórn, góð velferðarpólitík og ég hvet þingmenn úr öllum flokkum til að sameinast um þessar aðgerðir.