154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið í seinni ræðu til að minna á mikilvægi þess að hugað sé að öllum þáttum heilbrigðiskerfisins samtímis svoleiðis að hver og einn geti virkað og gegnt því hlutverki sem því sviði er ætlað. En hvað varðar þjónustu við eldri borgara þá þarf líka að huga að því að keðjan virki, þ.e. að það sé hugað að því að veita heimaþjónustu þar sem það á við, heimahjúkrun þar sem það á við og að fólk sækist eftir því, ekki sem leið til að losna við fólk af hjúkrunarheimilum og fela ættingjum að annast fólkið. Að því loknu þarf að vera til staðar í auknum mæli það sem mætti kalla þjónusturými þar sem fólk hefur félagsskap og býr við ákveðið öryggi. Slíkt er auðvitað til, en þetta er liður sem hefur að mínu mati verið vanræktur, það sem var kannski einu sinni kallað elliheimili. En að því búnu hafi fólk þá kost á því að fara á hjúkrunarheimili þegar það er ekki lengur fært um að sjá um sig sjálft með aðstoð.

Það er mjög mikilvægt að huga að því í þessu hvers konar umhverfi fólkinu er búið. Þetta þarf að vera fallegt umhverfi, helst fallegar og aðlaðandi byggingar því að það hefur ótrúlega mikil áhrif á líðan fólks. Það var nú grínast með að danska ríkissjúkrahúsið væri svo ljótt, svo ljótar byggingar að það væri sparnaðarráð; þegar eldra fólk legðist þar inn og liti út um gluggann væri sama hvert menn teldu að þeir færu í framhaldinu, það gæti ekki verið eins óaðlaðandi og þetta. Við megum ekki byggja slíkar byggingar fyrir eldra fólkið. Við þurfum að búa til byggingar sem ýta undir vellíðan og langlífi.