137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég geri athugasemd við það að frú forseti skuli gera athugasemd við það að við séum að gera athugasemd við fundarstjórn forseta. — Náði einhver þessari setningu? — Mér finnst það algerlega óásættanlegt að við skulum vera að ræða stjórnartillögu, tillögu sem mér skilst að hafi verið helsti tilgangur þess að boða okkur til funda á sumarþingi og við sjáum bara helminginn af ríkisstjórninni. Meira að segja utanþingsráðherrarnir telja að tillagan sé svo mikilvæg að það sé ástæða til að mæta en hæstv. ráðherrar Vinstri grænna sjá ekki ástæðu til að sitja undir framsögu hæstv. utanríkisráðherra.

Ég ítreka það að forseti Alþingis óski eftir að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónsson, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason, sem ætti nú einmitt að hlusta á umræðuna um aðildarumsókn, og hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir mæti hér og sitji undir umræðunni.