151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[16:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef líka hlýtt á Guðrúnu Kvaran og fleiri ræða ættarnöfnin og hvernig þau samræmast íslensku málkerfi. Í dag er það þannig að það eru töluvert rýmri heimildir til að taka upp ættarnöfn en voru hér lengst af á 20. öldinni og ég er ekki viss um að það hafi valdið neinum straumhvörfum í þessum efnum. Ég held að það sé rétt að hafa það í huga. Íslenska mál- og nafnahefðin hefur staðið býsna vel af sér þær breytingar sem átt hafa sér stað. Ég sé ekki fyrir mér, ólíkt hv. þingmanni, að þó að frelsi væri aukið á þessu sviði þá myndi það leiða til þeirra hörmunga fyrir íslenska mannanafnahefð sem hann telur. Ég held að í grunninn sé það þannig og verði áfram þannig að íslensk tunga og hefðir og venjur í sambandi við íslenska tungu lifi vegna þess að þau eiga hljómgrunn með þjóðinni, vegna þess að fólk velur að tala íslensku, fólk velur íslensk nöfn, ekki vegna þess að löggjafinn taki af skarið og banni hitt eða þetta. Ég held að þannig eigum við að nálgast þetta. Ég er til í að skoða frumvarpið með gagnrýnum augum. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að íslensk mannanafnahefð er miklu eldri og rótgrónari en lagabókstafurinn sem við erum að fást við í þessu tilliti.