154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

vaktstöð siglinga.

180. mál
[12:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að kjarna málefnið í þessum breytingum sem við erum hér að fjalla um varðandi vaktstöð. Hv. þingmaður kemur inn á þetta ferli. Þetta er alþjóðlega mjög regluvætt umhverfi og hefur kallað á sérhæfðar fjárfestingar. Neyðarlínan hefur fjárfest í fjarskiptakerfum og það er liður í því að uppfylla þessar alþjóðlegu skuldbindingar Íslands á sviði siglinga. Það er mikilvægt að halda því til haga. En eins og hv. þingmaður segir eru auðvitað örar breytingar en ég myndi alltaf draga þá ályktun að þær myndu hanga saman við þetta alþjóðlega regluverk. Um leið safnast þekking hjá þeim aðilum sem við felum að sinna þessu hverju sinni.

Þá kunnum við að koma að þeirri kjarnaspurningu sem hv. þingmaður kom inn á: Hvernig samræmist þetta lögum um opinber innkaup? Við verðum að halda því til haga að það er auðvitað alltaf heimilt og það er alltaf það sem við horfum til. Í 10. gr. þeirra laga segir að lögin taki ekki til opinberra samninga sem hafi það meginmarkmið að stofna til eða reka almenn fjarskiptanet, hagnýta slík fjarskiptanet eða sjá almenningi fyrir einni eða fleiri tegundum rafrænnar fjarskiptaþjónustu. Þá eru þjónustusamningar sem varða almannavarnir og aðra forvarnaþjónustu gegn hættum sem veitt er af stofnunum eða samtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni undanskilin frá gildissviði laganna samkvæmt l-lið 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Þessi ákvæði eiga við um þá starfsemi sem fer fram í vaktstöð siglinga. En ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns um að draga þetta fram því að þetta skiptir miklu máli.