154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Spurningin sem hefur hvílt á mér um árabil og hefur ekki enn verið svarað í þessari umræðu allri með fullnægjandi hætti er: Hvers vegna stundum við hvalveiðar? Opinberu rökin eru: Því við megum það, það eru engir útlendingar að fara að segja okkur hvað við megum og hvað ekki. Það eru ekkert sérstaklega góð rök að mínu mati. Við þurfum ekkert endilega að gera allt þó að við höfum sjálfsákvörðunarréttinn um það. Sannarlega höfum við hann þarna.

Raunverulega ástæðan fyrir því að við veiðum hval — og þegar ég segi við þá meina ég bara að það sé heimilt hérna, því auðvitað ætla ég ekki að taka á mig ábyrgð á þeim hryllingi sem hvalveiðar eru — er sú að það er einn maður úti í bæ sem hefur það að áhugamáli, svo miklu áhugamáli og einlægu að þrátt fyrir litla eftirspurn og tap af rekstrinum heldur hann þeim áfram. Raunar leitar hann allra leiða og leggur hart að sér að ná upp eftirspurninni, finna eftirspurn, búa til eftirspurn eftir því sem hann langar svo mikið til að bjóða. Það er snúið og í raun enginn áfangastaður í boði nema annað eyland hinum megin á hnettinum vegna alþjóðlegra takmarkana á viðskipti með hvalafurðir. Framboðið kemur fyrst, því hann langar svo mikið að veiða hval. Eftirspurnin er aukaatriði. Við hljótum að geta búið hana til, hugsar hann, svo ég geti nú haldið áfram að veiða. Flest myndu bara finna sér eitthvað annað að gera.

Mér þykir áhugavert að sjá, og gaman að mörgu leyti, nýtilkominn og mjög einlægan áhuga hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á stjórnarskránni og mannréttindum. Það væri gaman að finna meira fyrir þeim áhuga í öðrum málum þar sem hann er afar takmarkaður. Í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segir, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Einkahagsmunir, áhugamál einstakra manna, víkja þannig fyrir almannahagsmunum, enda er það gert víða um heim, reyndar víðast hvar. Mig langar því að velta því aðeins upp hvort hv. þm. Teitur Björn Einarsson telji flest ríki heims, öll nema tvö eða þrjú, vera að brjóta mannréttindi, vegna þess að atvinnufrelsi er ekki einhver sérstök einkaréttindi Íslendinga. Þau eru vandlega skjalfest mannréttindi fólks víða um heim. En rökin fyrir hvalveiðum eru bara þessi. Þennan eina mann langar að veiða hvað sem það kostar og hann á bara að fá að gera það af því bara — frelsið. Gegn öllum þeim rökum sem mæla gegn hvalveiðum hlýtur það að teljast frekar lélegt.

Hvalir eru villt dýr og með frumvarpinu sem við erum að ræða hér er lagt til að gera hvalveiðar óheimilar með því að fella brott sérlög um hvalveiðar og færa hvali undir lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, því hvers vegna í ósköpunum ætti að gilda sérstök löggjöf um hvali? Skv. 2. mgr. 2. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum gilda þau hvorki um hvali né seli. Mig langar kannski að rifja upp hér þann misskilning sem hefur komið fram ítrekað í máli þeirra sem styðja hvalveiðar að hvalir eru ekki fiskar, hvalir eru spendýr. Hákarlar eru hins vegar fiskar, mér finnst þetta áhugavert. Undantekningin í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum sem undanþiggur hvali og seli var ekki upphaflega í frumvarpinu til laganna eins og það var lagt fyrir þingið heldur var því bætt við í meðförum þingsins. Um breytinguna er ekki farið mörgum orðum en þó segir, með leyfi forseta:

„Um hvali gilda sérstök lög, lög um hvalveiðar, nr. 26/1949, sem fjalla bæði um veiðar, vernd og friðun tiltekinna hvalategunda. Þá gilda einnig um hvali ákvæði í Rekabálki Jónsbókar,“ — rekabálki, vegna þess að hvalir voru nýttir hér á öldum áður fyrst og fremst þegar þá rak á land, þá þurftu að vera til reglur um hver ætti hvað — „Alþingisdómur um rekamark frá um 1300, Konungsbréf frá 23. júní 1779 og opið bréf frá 4. maí 1778.“

Þetta er það eina sem stendur um þessa breytingu, að það eigi að undanþiggja hvali í lögum um vernd og friðun villtra dýra, villtra fugla og spendýra, en svo vill til að vernd og friðun hvala á sér langa sögu á Íslandi. Með lögum um friðun hvala frá 1886 voru leiddar í lög mjög miklar takmarkanir á hvalveiðum. Þá var friðun hvala aukin enn frekar 1903 og aftur 1913. Það er því, eins og hefur komið fram hér í ræðum annarra hv. þingmanna, nær að segja að verndun hvala sé menningararfur okkar Íslendinga en ekki slátrun þeirra.

En ókei, förum betur yfir rökin gegn hvalveiðum þar sem við erum búin að fara yfir rökin fyrir þeim, vegna þess að þau eru einfaldlega þau að einn mann langar til að veiða hval. Hvalveiðar eru andstæðar lögum um velferð dýra. Við erum með lög um velferð dýra sem gilda hér á landi. Þau gilda líka um hvali, þannig að svo má segja að þetta sé ólögleg starfsemi nú þegar, enda er hún vandkvæðum bundin eins og við höfum séð á síðustu vikum. Meiri hluti almennings er á móti hvalveiðum og sívaxandi hluti almennings er á móti hvalveiðum og það ekki bara af því að Hollywood er brjálað, fólk er bara að læra meira og meira um hvalveiðar.

Þegar ég var yngri skildi ég aldrei af hverju það mátti ekki veiða hval af því að ég var búin að lesa einhverjar heimildir um að þeir væru ekki lengur í svona mikilli útrýmingarhættu. Ég hélt alltaf að þetta snerist um útrýmingarhættuna, enda hefur það gert það á tíðum, svo ég bara gúglaði. Ég fór að kynna mér þetta. Ég hafði þá ekki hugmynd um það hversu ómannúðlegar, hversu hræðilegar, þessar veiðar eru fyrir dýrið, sem er spendýr, sem eru ótrúlega lík okkur á margan hátt, forvitin, greind, þetta eru skemmtileg dýr og falleg og finna mikið til. Það er nefnilega ekki hægt að tryggja að hvalur deyi skjótum dauðdaga vegna þess að hvalir eru svo stórir, þeir eru ofan í sjónum og þeir eru á hreyfingu.

Maður hefði haldið að þetta væri eitthvað sem við ættum að sætta okkur við. Þá er það bara þannig, við getum ekki gert það þannig, við getum ekki gert þetta mannúðlega og þá skulum við ekki vera að gera það. Maður hefði haldið að þetta myndi duga til, eins og hefur nú orðið til þess að við höfum hætt hinni ýmsu dýraslátrun í gegnum tíðina og það er jafnvel ýmiss konar ómannúðleg dýraslátrun sem við höfum bannað og bönnum vegna þess að við bara sjáum að það er engin ástæða til að vera að láta þessi dýr þjást. Þegar ég var búin að kynna mér þetta í þaula þá skildi ég þetta alveg og þá sá ég að það er engin ástæða til að halda þessu hræðilega dauðastríði þessara stórkostlegu skepna áfram.

Hvalveiðar eru ekki íslenskur menningararfur, eins og ég minntist á hérna áðan og fer aftur betur yfir á eftir. Efnahagur og viðskiptasambönd eru sannarlega í húfi. Það hlýtur að skipta máli og ég hefði haldið að það ætti að skipta hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins máli en það virðist skipta þá meira máli að einn maður fái að sinna áhugamáli sínu og margan grunar að það skipti mögulega máli hvaða maður það er, að það myndi ekkert endilega gilda um hvern sem er á þessu landi.

Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar, þeir binda kolefni og framleiða súrefni. Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að Ísland eigi að vera leiðandi fyrirmynd þegar kemur að verndun hafsvæða og dýrategunda í hafinu en ekki síðust í partíið að fara að gera hlutina almennilega. Við erum stórþjóð. Kennari minn í Evrópurétti í alþjóðlegu samhengi í Belgíu fyrir örfáum árum síðan talaði um það að hann var mjög uppnuminn þegar hann frétti að ég væri frá Íslandi af því hann er mjög upptekinn af alþjóðlegum hafrétti og hann sagði: Þið eruð pínupínulítil þjóð, þið haldið að þið séuð rosalega lítil og áhrifalaus. Þið áttið ykkur ekki á því að þið eruð stórþjóð þegar kemur að hafinu, fiskveiðum og öðru. Ég held að við áttum okkur reyndar oft á því en þetta kom mér samt á óvart og það kom mér á óvart hvað það eru mikil áhrif sem við höfum í okkar smæð. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að við höfum alla okkar sögu og þekkingu á hafinu og nýtingu þess. Að mörgu leyti erum við leiðandi þegar kemur að því en þarna erum við bara einhver eftirbátur og það þykir mér miður. Við eigum að vera leiðandi fyrirmynd. Það erum við ekki með því að halda hvalveiðum áfram til að þóknast einum manni.

Það hefur lengi verið bent á það að hvalir séu svo þróaðar lífverur að það sé óásættanlegt hversu ómannúðlegar aðferðir eru viðhafðar við veiðar á þeim. Það hefur verið bent á þetta mjög lengi, mun lengur en síðan einhver skýrsla á vegum hæstv. matvælaráðherra kom út. Í kjölfar þess að dýraverndunarsamtök birtu oft myndir og myndskeið sem sýna fram á þetta á vertíðinni 2022, sýna fram á að okkur hefur ekkert farið fram, við búum ekki yfir þeirri tækni sem þarf til að geta veitt þessi dýr með mannúðlegum hætti, í kjölfarið á þessari sönnun þá setti hæstv. matvælaráðherra reglugerð um nánara eftirlit. Þessu eftirliti hafa verið gerð skil og sýnir það skýrt fram á að þetta er ekki hægt. Samkvæmt skýrslunni standast veiðiaðferðir Hvals hf. engan veginn kröfur laga um dýravelferð og eru frávikin svo tíð að frekar er um að ræða reglu en undantekningu.

Þegar þessi skýrsla kom út þá kom mér að einhverju leyti á óvart hvað hún olli miklu fjaðrafoki vegna þess að ég taldi þetta vera vitað og sjálf sá ég alveg sem löglærð manneskja vandann sem hæstv. ráðherra stóð frammi fyrir vegna þess að við vissum þetta. Við vissum alveg að þessar veiðar standast ekki lög, en þeim var haldið áfram, gefið var út leyfi þrátt fyrir þá vitneskju. Þá lentum við í alls konar lögfræðilegum dilemmum sem ég get alveg skilið að hafi verið áskorun fyrir hæstv. ráðherra. En það breytir því ekki að þarna eru komin ný, skýr og vel unnin gögn um það að veiðiaðferðir sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmast ekki ákvæðum um velferð dýra. Þetta er komið svart á hvítu. Þetta ætti að duga að mínu mati.

En eins og ég nefndi hérna áðan er meiri hluti almennings á móti hvalveiðum og andstaðan fer vaxandi og ég held að það sé engin tilviljun. Ég held að það sé að mörgu leyti vegna þess að fleiri eru farnir að gúgla, rétt eins og ég gerði. Ég er ekkert viss um að ég hefði svarað að ég væri algerlega á móti hvalveiðum fyrir 15 árum síðan áður en ég fór í þessa rannsóknarvinnu mína, af því að ég hélt að það snerist bara um að þeir væru að verða útdauðir en svo væri það ekki rétt og ég var svona ringluð með þetta. Ég held að fólk sé bara að átta sig á því hvað hvalveiðar eru, um hvað þær snúast og hvað er að gerast þarna og hvers konar skepnur hvalir eru. Ég held að þetta sé ástæðan. Ég held að það sé ekki bara Hollywood eins og ég sagði hérna áðan. Það er vegna þess að Íslendingum svíður það að við séum að gera þetta. Við viljum ekki vera að veiða hval vegna þess að við sjáum enga ástæðu til þess að kvelja greindar og stórkostlegar skepnur með þessum hætti.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra hjá mér að sinni en ég vil bara að lokum nefna að ég sakna þess dálítið að sjá ekki fleiri hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í þessari umræðu. Það hefði verið gott og gagnlegt að hafa þau hér með.