131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kom samt sem áður fram í umræðunni þegar við ræddum málið síðast, fyrir viku, að stjórnarandstaðan óskaði eftir því að málinu yrði frestað. Það kom ekki bara einu sinni fram heldur margoft, bæði af þeim ástæðum sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefnir hér og sömuleiðis af öðrum ástæðum. Hugleiðingar um frestun eða tafir á málinu skipta kannski ekki öllu máli, það sem mestu máli skiptir er að stjórnarandstaðan og þar á meðal Samfylkingin hefur lýst því yfir að flokkurinn og stjórnarandstaðan styðji ekki sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík. Það kom í svari hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar við fyrirspurn minni fyrir viku síðan þar sem ég spurði hv. þingmann hreinlega: Styður þingmaðurinn og Samfylkingin þetta mál og sameininguna? Svarið var alveg skýrt að flokkurinn gerði það ekki. Það er náttúrlega lykilatriði í málinu. Enda neitaði hv. þm. Einar Már Sigurðarson ekki þessum fullyrðingum mínum þegar hann kom í andsvar við mig áðan og þær standa, enda styðjast þær við yfirlýsingar þingmanns Samfylkingarinnar. Það er bara gott til þess að vita að menn séu hreinskilnir í málinu. Þeir vilja ekki sameina þessa tvo skóla. Þeir verða að eiga það við sig en við í stjórnarliðinu erum sáttir við okkar hlut í málinu og erum stoltir af þessu máli og styðjum það og viljum leiða það í lög sem allra fyrst.