138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Starfandi læknum á Íslandi hefur fækkað um 90 frá 1. janúar 2008 sem þýðir að einn af hverjum tíu læknum leitar atvinnutækifæra utan landsteinanna. Það kemur svo sem ekki á óvart að framsæknustu hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi sparnað í heilbrigðiskerfinu eru að lækka laun lækna þrátt fyrir atgervisflótta meðal ungra lækna.

Gert er ráð fyrir að 300 störf muni skapast á næstunni við endurbyggingu starfsemi sjúkrahúss á vallarsvæðinu á næstu árum. Við erum að tala um störf fyrir hámenntaða einstaklinga í heilbrigðisgeiranum, lækna, hjúkrunarfræðinga og fleiri stéttir. Áætlanir gera ráð fyrir að þarna muni skapast 300 störf sem muni skila allt að 300 millj. í skatttekjur. Á sama tíma mun að sjálfsögðu atvinnulausum fækka sem mun spara ríkinu 100 millj. Þá eru ótaldar tekjur sem aðilar svo sem flugfélög, þjónustuaðilar og aðrir munu hafa af komu sjúklinga og aðstandenda þeirra hingað til lands. Það er því ljóst að 100 millj. sem lagðar hafa verið í uppbyggingu á vallarsvæðinu af hálfu hins opinbera munu skila sér margfalt á örskömmum tíma. Ætla vinstri grænir að hafna þessari atvinnuuppbyggingu líka? Er andúðin á einkaframtakinu slík að einkaaðilar mega ekki lengur setja upp starfsemi á Íslandi? Ég hef áhyggjur af unga fólkinu sem er atvinnulaust. Tækifærum til atvinnu fer sífækkandi. Við verðum að sýna ungu fólki fram á að það eigi framtíðina fyrir sér á Íslandi.