149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur hjá hv. þingmanni að ég hafi sagt að meiri bjór hefði verið drukkinn eftir 1989. Ég sagði meira áfengi. Bjór var ekki seldur hér fyrir árið 1989. Honum var hins vegar smyglað svolítið hingað en ekki eru til tölur yfir það.

Hv. þingmaður vefengir tölur frá landlækni og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem segja að aukið aðgengi auki drykkju. Mig fýsir að vita hvaða upplýsingar hv. þingmaður hefur sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki og sem landlæknir hefur ekki.

Síðan langar mig líka til að spyrja hv. þingmann: Af hverju er nauðsynlegt að byrja að selja áfengi í fleiri sérvöruverslunum til að auka framlag í lýðheilsusjóð? Er ekki hægt að gera það bara í einu vetfangi, eins og ég hef sagt áður?

Ef allar greinar í þessu frumvarpi væru teknar út aðrar en sú að efla lýðheilsusjóð myndi ég samþykki það. Þannig að ég spyr hv. þingmanninn: Er nauðsynlegt að fela einkaaðilum að selja áfengi til að auka fræðslu, forvarnir og greiðslur í lýðheilsusjóð?