149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Hafa margar prýðisræður verið fluttar og ýmsu velt upp. Þetta mál hefur verið flutt nokkrum sinnum áður, eins og kemur fram í greinargerðinni, á 144., 145., 146. og 148. þingi og svo núna. Ég man að þegar ég var hérna inni sem varamaður nokkrum sinnum á kjörtímabilinu 2013–2016 var þetta mál í gangi og ég tók þátt í umræðu um það. Ég er ekki neinn talsmaður boða og banna. Mér fannst á þeim tíma í sjálfu sér svolítið léttvægt að henda málinu í gegn og áfengi mátti fara í búðir mín vegna. Ég tók þann vinkil á það. En svo fór ég að fræðast, lesa mér til og sjá hvað aðrir sögðu um þetta, aðrar þjóðir, umsagnaraðilar o.fl. Þá fór mér að snúast hugur, því að oft er það sem manni finnst sjálfum að óathuguðu máli ekki rétt.

Eins og hefur komið fram í ræðum segja aðrar þjóðir, hér var Danmörk nefnd og ég veit að það er eins á Bretlandseyjum: Verið ekki að spá í þetta, hafið fyrirkomulagið bara eins og það er. Við dauðsjáum eftir því að hafa farið í þá vegferð að fara með áfengi í búðir. Við eigum við aukin vandamál að stríða, þar á meðal aukna drykkju. Það er aukinn alkóhólismi. Það eru, sem komið hefur fram í mörgum ræðum, auknir líkamlegir sjúkdómar eins og lifrarsjúkdómar, æðasjúkdómar, krabbamein og annað slíkt. Það eru mjög dýrir sjúkdómar ef við tökum peningahliðina á því. Slíkir sjúkdómar eru mjög dýrir. Hér hefur komið fram að allar aukaverkanir, ef þetta frumvarp færi svona í gegn, kæmu við budduna hjá hinu opinbera og þar með skattgreiðendur.

Mér fór því að snúast hugur. Ég hafði reyndar ekki rosalega skoðun á málin en þarna fékk ég þá sýn að þetta væri ekki tímabært. Við höfum margt annað merkilegra að ræða á hinu háa Alþingi en þau mál.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar að frelsi fylgir ábyrgð. Tek ég heils hugar undir það. Það hefur líka verið talað um forsjárhyggju. Við þurfum að taka afstöðu í málinu og ég er algjörlega á þeirri skoðun að styðja óbreytt fyrirkomulag á áfengissölu. Ég held að við höfum ekkert að gera með að fara með áfengi í búðir og fyrir því hafa verið færð rök. Ef við tölum um lítra vorum við fyrir daga bjórsins, sem var leyfður 1989, í einhverjum 3,7 lítrum og fórum eftir það upp í 7 lítra og svo 9 lítra. Ef frumvarpið færi í gegn færum við upp í 11 lítra, sem þýðir meira álag á líkamann og það kallar á líkamlega sjúkdóma.

Hitt er svo annað mál, eins og kom reyndar fram hjá stuðningsmönnum sumum hverjum, að það má kannski líta á menningarlegu hliðina, ofurölvun og annað. Það hefur breyst. Menn eru ekki með pelann í buxnastrengnum slagandi einhvers staðar um göturnar eins og var þegar ég var ungur. En drykkjan hefur bara færst á annan stað. Það er meiri heimadrykkja, það er meira af því sem við höfum stundum kallað gardínudrykkju. Það er mjög margt sorglegt í kringum þetta. Það er meiri drykkja hjá öldruðum. Það er mjög sorglegt að sjá fullorðið fólk illa farið af drykkju og það fer af því virðing þegar maður sér það drukkið, ég verð að segja það.

Unglingadrykkjan hefur minnkað. Unglingar eru betur upplýstir í dag. Þar kemur forvörnin inn í og er það vel. Ég er ekki viss um að unglingar hefðu gott af því að áfengi kæmi í búðir, þeir geta alveg nálgast það þar á einhvern hátt.

En það er annað vandamál komið fram hjá unglingunum og það er neysla annarra efna. Þar er aukin neysla á t.d. kannabisefnum og þaðan af sterkari efnum. Þar er þróun og þar er líka markaðssetning, hún er bara í undirheimunum.

Ég flutti ræðu um daginn um að kannabis er að þróast inn í veip. Bandaríkjamenn eru búnir að leyfa kannabis í flestum ríkjum sínum. Þar er komin markaðssetning hjá peningaöflum sem kunna að maka krókinn. Þeir markaðssetja þetta sem tískuvöru, neysluvöru.

Komið hefur fram í ræðum að áfengi er ekki venjuleg vara. Ég get ekki líkt því saman við sykur og tóbak. Áfengi er hugbreytandi efni og margir hafa ekki gott af því að hugur þeirra breytist. Ég er einn af þeim. Ég er alveg þokkalegur eins og ég er.

Það kom fram í andsvörum og ræðu hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni að hann hefði rosalega gott af því að neyta áfengis. Það hefði hjálpað honum gríðarlega mikið og gert hann að betri manni. Ég samgleðst honum með það. Það er einu sinni þannig að 80% okkar geta neytt áfengis þokkalega og hv. þm. Brynjar Níelsson er inni í þeirri prósentutölu. Ég óska honum til hamingju með það. Ég er hinum megin sjálfur, prívat og persónulega, ég er inni í hinum 20%.

Ég man alveg eftir þeim tíma þegar ég var að basla við að reyna að ná tökum á þeim fjanda sem áfengissýkin er. Ég eyddi 20 árum í þá tilraunastarfsemi en hef eignast annað líf síðustu 25 árin. Ég er búinn að vera lengur allsgáður en undir áhrifum áfengis og mæli eindregið með þeirri upplifun.

Á þeim tímapunkti sem ég vitnaði í áðan, þegar ég kom fyrst inn sem varamaður og þetta mál var til umræðu í þinginu, var ég svolítið frjáls í hugsun og vildi ekki vera með forræðishyggju. En ég er alls ekki inni á því núna að við eigum að gera neina breytingu á fyrirkomulaginu. Ég held að við séum ekki komin að því.

Talað var um Grænlendinga. Þeir eru í miklum vanda vandræðum með áfengi. Það er mikið áfengisvandamál á Grænlandi. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort Grænlendingar séu á svipuðum stað og við vorum á fyrir 100 árum. Hér var mikið áfengisvandamál fyrir 100 árum. Síðan er t.d. á meginlandinu, eins og í Frakklandi, á Spáni og Ítalíu og á þeim svæðum, ekki mikill alkóhólismi en þar er skorpulifur, æðasjúkdómar og önnur slík vandamál. Þetta er svo misjafnt á milli landa. Það er menningarmismunur, kannski í einhverjum tímafaktor.

Mér datt því í hug hvort ekki væri hægt að setja þetta frumvarp í skjalasafn og geyma það í svona 100 ár og leggja það svo fram aftur og vita hvernig viðbrögðin hjá þjóðinni og þingmönnum verða þá. Við erum ekki komin á þann stað að þurfa að vera að velta þessu fyrir okkur að mínu áliti.

Ég gleymdi að taka með mér símann hingað upp. Ég ætlaði að lesa smá upp um bannárin á sínum tíma. Við höfum gert margar tilraunir í áfengismálum í gegnum áratugina. Hér voru bannár í 20 ár og þá mynduðust undirheimar sem er ekki gott. Við leyfðum síðan léttvín, kallað Spánarvín, á því tímabili en auglýsingar voru bannaðar. Síðan var bannið afnumið og áfengi leyft í áfengisverslunum en auglýsingar voru bannaðar áfram.

Eins og hefur komið fram í ræðum er engin nauðsyn á því að auglýsa áfengi, það auglýsir sig sjálft. Þeir sem vilja nálgast áfengi hafa mjög greiðan aðgang að því eins og fyrirkomulagið er í dag.

Ég hef ekki mikið meira um málið að segja. Ég hefði viljað að frumvarpið hefði ekki verið lagt fram. Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið meira en árétta það sem hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að umsagnaraðilar og stofnanir sem hafa fjallað um frumvarpið mæla með að það fari ekki í gegn. Þeir einu sem vilja fá það í gegn eru stórverslanirnar og þeir sem leggja frumvarpið fram. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Þetta er kristaltært í mínu höfði og ég hef þau orð ekki fleiri.