151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram hér að ég var ekkert að kvarta yfir að málið væri að koma núna, ég var ekki að tala um að það ætti ekki að koma fram núna og ég var ekki að segja að það væri aldrei rétti tíminn. Ég var bara að lýsa yfir undrun minni og velta vöngum yfir því af hverju Viðreisn treysti sér ekki til að koma með málið fyrr en núna. En ég tók því fagnandi. Ég tek því alltaf fagnandi að fá að ræða um Evrópusambandið. Mér finnst það bara skemmtileg umræða og ég tók fram að ég myndi alls ekki víkja frá þeirri umræðu eða kvarta undan henni, ég myndi taka henni fagnandi. Ég var bara að velta fyrir mér af hverju Viðreisn hefði ekki haft kjark til að koma fyrr fram með málið og hvort þau væru í skjóli nætur með þessa umræðu.

Varðandi sjálfstæðið og að þau í Viðreisn séu að koma með málið núna, einmitt út af efnahagsástandinu og út af Covid, ætla ég bara að benda á að eftir því var tekið hvernig þessi litla sjálfstæða þjóð, sem er ekki í Evrópusambandinu, náði sér hratt upp úr efnahagskreppunni án aðstoðar Evrópusambandsins. Það er líka tekið eftir því úti um allan heim núna hvað þessi litla sjálfstæða þjóð er að ná gríðarlegum árangri í sóttvörnum og í því að takast á við Covid. Það eina sem hefur klikkað er akkúrat það sem við leituðum til Evrópusambandsins með, bólusetningarferillinn. Það er hægt að vera vitur eftir á og segja: Já, líklega hefðum við bara staðið okkur betur án þess að vera með Evrópusambandinu. Í ljós kom að það voru ekki einhverjar risafjárhæðir sem bóluefnið kostaði, miðað við hverju við erum að tapa á hverjum degi. Þannig að já, ég held að við hefðum bara staðið okkur betur sjálf.