138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

kostnaður vegna starfa erlendra sérfræðinga í Seðlabankanum.

264. mál
[15:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur borist svohljóðandi fyrirspurn á þskj. 302, 264. mál frá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Í fyrsta lagi: Hver er heildarkostnaður, sundurliðað eftir mánuðum, við störf Sveins Haralds Öygards, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu? Ráðuneytið leitað til Seðlabanka um svör og eftirfarandi svar barst:

Samkvæmt ákvörðun bankaráðs eru mánaðarlaun bankastjóra Seðlabanka Íslands kr. 1.575.000. Til viðbótar leggur bankinn bankastjóra til bifreið til fullra umráða. Sérkjör fyrir Svein Harald voru að bankinn greiddi leigu fyrir tveggja herbergja íbúð og fargjald á ódýrasta farrými á tveggja vikna fresti til Noregs. Á sex vikna fresti greiddi bankinn fargjöld fyrir fjölskyldu Sveins, allt að þrjá miða á ódýrasta farrými milli Noregs og Íslands. Við starfslok fékk Svein greidd biðlaun í tvo mánuði. Kostnaður vegna túlka nam 783.433 kr. á starfstímabili Sveins. Ekki er unnt að sundurgreina þýðingarkostnað sem er sérstaklega til kominn vegna starfs Sveins sem seðlabankastjóra. Greiddur kostnaður vegna leigu og fargjalda var samtals 1.684.445 kr.

Önnur spurningin var: Hver er heildarkostnaður, sundurliðaður eftir mánuðum, við setu Anne Sibert í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu? Nú les ég aftur upp svar sem barst frá Seðlabankanum:

Samkvæmt ákvörðun bankaráðs Seðlabanka Íslands eru laun Anne Sibert 2.000 bresk pund á mánuði. Bankinn greiðir fargjöld til og frá London ásamt hótelkostnaði. Þátttaka hennar í peningastefnunefndarfundum hefur einnig verið í gegnum síma. Enginn túlkunar- eða þýðingarkostnaður fellur til vegna setu hennar í nefndinni. Greiddur kostnaður vegna fargjalda og uppihalds er samtals kr. 1.652.390.

Þriðja spurningin var: Hver er heildarkostnaður, sundurliðaður eftir mánuðum, við setu Daniels Gros í bankaráði Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu? Enn barst svar frá Seðlabankanum:

Laun bankaráðsmanna eru 117.000 kr. á mánuði. Engin ákvörðun hefur verið tekin um það hver ber annan kostnað af setu Daniels Gros í bankaráði. Kostnaður vegna túlks er 60.134 kr. og bankinn greiðir einnig fyrir flugfar til og frá Brussel ásamt hótelkostnaði. Þýðingarkostnaður hefur ekki verið sundurgreindur sérstaklega. Greiddur kostnaður vegna flugfargjalda og hótels er 340.520 kr.

Hér með lýkur þeim svörum sem bárust frá Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurnarinnar. Ég vil því bæta við að þótt vitaskuld sé eðlilegt að fylgjast með kostnaði sem þessum og upplýsa um hann opinberlega vil ég benda á að störf alls þessa fólks hafa eftir því sem ég best veit verið vel af hendi unnin og ekkert út á þau að setja. Ég veit ekki betur en að í öllum tilvikum hafi verið talinn talsverður hagur af því fyrir Seðlabankann að njóta starfskrafta þessara erlendu sérfræðinga. Ég vona að umræða um kostnað vegna þess verði ekki til þess að kasta rýrð á vinnuframlag þeirra til Seðlabankans.