149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þarna er á ferðinni ákveðin rökvilla hjá þingmanninum, að ég tel. Út frá sömu rökum ættum við t.d. að hætta að vera með reglur um hámarkshraða vegna þess að þegar eru í gangi svo mörg brot á þeim lögum, við erum ekkert að gera í því að stoppa þau og þá hljótum við að hætta því. Auðvitað er það ekki þannig. Það er hlutverk hins opinbera að setja leikreglur, tryggja að við gerum það sem við getum til, við skulum segja, að bæta heilsufar þjóðarinnar, auka líkindi þjóðarinnar á að komast á fullorðinsár án þess að verða fyrir óþarfaáreiti og sérstaklega ekki fyrir áreiti sem er þekkt að muni valda heilsutjóni. Þarna held ég að þingmaðurinn sé á rangri leið. Við erum ekki sem samfélag undir það búin að fara í verulegum mæli að auka áreiti sem eykur heilsutjón og það er ekki hlutverk okkar sem löggjafarsamkundu.