149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér er ekki hlátur í hug. Ég verð að lýsa yfir alveg sérstökum vonbrigðum með ræðu hv. þingmanns. Að leyfa sér að kalla áhyggjur fólks af aukinni áfengisneyslu hræsni, af áhrifum á heilsu fólks, af áhrifum á fólk eins og mig sem hefur þurft að leita sér aðstoðar vegna áfengisneyslu, að afgreiða á einu bretti allt sem er andsnúið málflutningi hv. þingmanns sem hræsni eru gríðarleg vonbrigði.

Telur hv. þingmaður að aðrir sem hafa lýst sömu áhyggjum og tæpt hefur verið á í umræðunni í dag sýni líka hræsni? Telur hv. þingmaður að landlæknir, SÁÁ, fleiri lýðheilsusamtök sýni hræsni og séu föst í einhverjum prinsippum um að ríkið verði að standa í ákveðinni sölu? Eða er þetta innantómt orðagjálfur í máli sem er grafalvarlegt mál?