132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[13:18]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Mér þótti merkilegur, þegar ég skoðaði skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2005, hæstv. samstarfsráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur, kafli sem þar er um byggðamál. Það sem þar er sett fram vakti athygli mína rétt eins og hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Þarna er verið að gera breytingar, þ.e. ákveðið að ráðherranefndin um byggðamál hætti sem sjálfstæð ráðherranefnd við áramótin síðustu. Frá ársbyrjun 2006 heyra því byggðamál ásamt atvinnumálum og orkumálum undir eina ráðherranefnd. Ég verð að viðurkenna að ég heyrði ekki alla framsöguræðu hæstv. ráðherra áðan en mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra skilgreiningu á því hvað þarna liggur á bak við og hvað er verið að gera.

Það fara að blikka aðvörunarljós þegar þessi breyting er gerð og málefnið fært undir þennan lið, atvinnumál og orkumál. Þá hugsar maður heim til Íslands, þar sem byggðamál eru vistuð í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa andmælt því og lagt fram tillögu um að breyta því og færa byggðamálin frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra yfir í forsætisráðuneytið á ný. Það er vegna þess að okkur hefur ekki fundist málin ganga nógu vel í iðnaðarráðuneytinu fram til þessa. Ég ætlaði ekki að fara út í langa umræðu um það en vísa þó til skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar, sem rædd var hér fyrir hálfum mánuði eða mánuði. Það reyndist uppprentuð skýrsla sem birt hafði verið tveimur þingum áður. Það er kannski daprasti vitnisburðurinn um hvernig það mál hefur gengið fyrir sig í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu fram til þessa. En það er rétt að hafa í huga að innan ríkisstjórnarflokkanna var samkomulag um að byggðamál færu frá forsætisráðuneytinu til iðnaðarráðuneytisins. Í staðinn fóru málefni Seðlabankans úr viðskiptaráðuneyti til forsætisráðuneytis. Þetta var verk fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar.

Aðvörunarljósin eru farin að blikka. Hvað á að gera í þessu norræna samstarfi? Af hverju er ráðherranefndin um byggðamál að hætta sem sjálfstæð ráðherranefnd? Af hverju er verið að færa málaflokkinn undir þennan lið?

Eins og hér kemur fram mun þó, samkvæmt samþykkt samstarfsráðherranna, norræna embættismannanefndin um byggðamál starfa áfram sem sjálfstæð embættisnefnd. Eins og hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Þegar þetta er skrifað er ekki fullkomlega ljóst hvert endanlegt fyrirkomulag verður varðandi samstarf embættismannanefndanna þriggja, um atvinnumál, byggðamál og orkumál. Mun það væntanlega skýrast á árinu 2006.“

Ég vildi gjarnan heyra það líka frá hæstv. ráðherra hér á eftir hvort eitthvað hafi verið gert með þetta og hvort það hafi komið leiðarlýsing af því hvernig þetta á að vera.

Eins og kunnugt er hafði norræna ráðherranefndin um byggðamál yfirumsjón með norrænu samstarfi á sviði byggðamála en framkvæmdin var í höndum embættismannanefndar um byggðamál, sem er samstarfsvettvangur embættismanna þeirra ráðuneyta norrænu landanna sem fara með byggðamál. Starfið á árinu byggðist á samstarfsáætlun sem gildir fyrir árin 2005–2008 og samþykkt var í formennskutíð Íslands árið 2004.

Þarna eru tvö ár eftir, 2007 og 2008, og skrýtið hvernig þetta skiptist. En það kemur væntanlega fram í andsvari hæstv. ráðherra á eftir hvað liggur þar að baki.

Samstarf Norðurlanda í byggðamálum tekur að sjálfsögðu breytingum með breyttri heimsmynd og sú staðreynd að þrjú norrænu landanna eru aðilar að ESB hefur vissulega áhrif á starfið í embættismannanefndinni. Þau eru sennilega með þá byggðaáætlun og byggðakerfi Evrópusambandsins hjá sér, sem sagt Finnar, Svíar og Danir.

Það er afar athyglisvert, virðulegi forseti, sem fram kom í fylgigögnum með nýrri byggðaáætlun sem rædd var um daginn og nú er í vinnslu í hæstv. iðnaðarnefnd, að þar var töluvert útlistað hvernig hinar norrænu frændþjóðir okkar framkvæma byggðamál. Það er öðruvísi en við gerum á Íslandi. Það má líka segja um þjóðina sem er ekki í ESB, Noreg, að þegar Evrópusambandsaðild var hafnað hjá þeim á sínum tíma þá stigu þeir skref í byggðamálum. Norðmenn tóku töluvert af Evrópusambandsstefnunni í byggðamálum til sín.

Við höfum rætt það á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti, í sambandi við verksmiðju sem fyrirhugað var að reisa í Mývatnssveit, hvernig norskir byggðastyrkir, það módel sem þeir tóku upp eftir fyrirmynd Evrópusambandsins, virkaði til að lokka til sín tilraunaverksmiðju. Það endaði því miður á þann hátt að af þessu varð ekki á Íslandi. Þetta átti að koma í Mývatnssveit í staðinn fyrir kísilverksmiðjuna. Fyrirtækið dagaði uppi af ýmsum öðrum ástæðum líka, tengdum fjárhag og fór á hausinn. En engu að síður er rétt að hafa í huga að Norðmönnum tókst að lokka það til sín vegna byggðastyrkjanna.

Því segi ég þetta, virðulegi forseti? Jú, Ég hef kannski sagt það einu sinni eða tvisvar áður, að til eru mjög góðar forskriftir að því hvernig norrænu þjóðirnar vinna í byggðamálum. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson fjallaði um að í skýrslu sem hann hefur lesið hefði komið fram hvernig til hefði tekist hjá norrænu þjóðunum við að flytja stofnanir út á land. Af höfuðborgarsvæðinu og út á land. Skoðum þá hrakfallasögu á Íslandi. Þá er nánast ekkert hægt að gera annað en að gefa íslenskum stjórnvöldum núll í einkunn fyrir það sem gert hefur verið þótt eitthvað hafi tekist. Nærtækast er að nefna stofnun Háskólans á Akureyri sem eina merkustu aðgerð sem gerð hefur verið í byggðamálum. Taka mætti nokkrar stofnanir sem hafa verið fluttar á land. Margar hverjar hafa hins vegar, vegna stjórnvalda, verið heftar í starfsemi sinni eftir það, t.d. Byggðastofnun sem ég held að sé leynt og ljóst stefnt að því að hálfdrepa.

En í þessari skýrslu þar sem fjallað er um byggðamálakaflann væri full þörf að skoða málin betur á Íslandi. Það eru til forskriftir sem taka þarf upp. Það eru til hugmyndir, en það vantar til viljann hér heima.

Ég tók líka eftir því, virðulegi forseti, að embættismannanefndin hélt aðeins fimm reglulega fundi á árinu. Haldinn var einn fundur ráðherra byggðamála. Ég hef svo sem ekki svo kynnt mér hvernig störfin gengu fyrir sig á árum áður, en er þetta er eðlilegt fundaplan, að ráðherrar hittist einu sinni? Væntanlega hefur þá ráðherra byggðamála á Íslandi setið þann fund. Gaman væri að heyra hæstv. samstarfsráðherra segja okkur frá því hvort svo hafi verið, hvað hafi komið út úr því og hvort þetta sé venjan, að aðeins einn ráðherrafundur sé haldinn um byggðamál. Eða er þetta í takt við þann minnkandi áhuga Evrópusambandsþjóðanna í Norðurlandasamstarfinu á að vinna að slíku í norrænu samstarfi og starfið hafi snúist meira að því sem hér er talað um, þ.e. Norrænu Atlantshafsnefndina, NORA?

Virðulegi forseti. Sú nefnd sem þar er í gangi og sagt er frá hér er ansi athyglisverð. Þar segir t.d. að Byggðastofnun sjái um þetta fyrir Íslands hönd. Það er ekkert nema gott eitt um það að segja en ég veit hins vegar ekki nákvæmlega hve mikið er unnið með það eða hver árangurinn er. Ég tek þó eftir því að á árinu bárust NORA 37 umsóknir og ákveðið var að styrkja 20 ný verkefni og framhaldsverkefni um alls 3,77 millj. danskra kr. Íslendingar eru þátttakendur í 16 þeirra en þau voru á sviðum auðlinda sjávar, ferðaþjónustu, upplýsingatækni, samgangna og orkumála. Mér er ekki vel kunnugt um þessi 16 verkefni eða hvernig þau hafa gengið. En ég sé að að ég get séð um þau fjallað á heimasíðu Byggðastofnunar, þar er yfirlit yfir eldri og nýrri norræn verkefni. Ég verð þó að játa að ég fer ákaflega sjaldan inn á heimasíðu Byggðastofnunar. Ég hætti því reyndar fyrir töluvert mörgum árum en það er annar handleggur sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Ég hef sett fram nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra sem flutt hefur þessa skýrslu, Sigríðar Önnu Þórðardóttur. Ég mundi gjarnan vilja heyra svör hennar við þeim á eftir þegar umræðu lýkur. Ég spurði um frekari skilgreiningu á þeirri breytingu sem gera á, sem ég gerði að umtalsefni í upphafi máls míns.