138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni Rúv.

[11:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að vekja máls á því mikilvæga máli sem snýr að niðurskurði RÚV til svæðisbundinna útsendinga á landsbyggðinni. Ég er Reykvíkingur, lifi og starfa hér í Reykjavík, börnin mín ganga í skóla í Reykjavík og mér finnst ég eiga rétt og reyndar kröfu á Ríkisútvarpið, þar sem það starfar eftir lögum, að ég og börnin mín, Reykvíkingar og höfuðborgarbúar allir fái fréttir utan af landsbyggðinni sem oft koma fram í viðtölum og þáttum í svæðisbundnum útsendingum, eins og gerist í spjallþáttum hér í Efstaleitinu. Það hefur oft orðið uppspretta mikilla frétta. Þarna er ég að vísa til jafnræðis. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar gengur út á að það skuli vera jafnræði meðal þegnanna. Ég fer fram á að þetta jafnræði gildi hér á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar áfram eins og hefur verið.

Úr því að við ræðum málefni Ríkisútvarpsins er rétt að minnast á að ég kalla líka eftir jafnræði í umræðu á milli kynja hjá RÚV í fréttum og þáttum. Ég kalla eftir jafnræði milli stjórnmálaflokka í fréttum og þáttum hjá RÚV. Það sem ríkissjónvarpið þarf að beita sér fyrir nú er að taka til endurskoðunar að sem mest jafnræði ríki á öllum sviðum.

Þessi lífeyrissjóðskostnaður sem hæstv. menntamálaráðherra kom inn á er athugunarverður. Ef það eru lífeyrisskuldbindingar á Ríkisútvarpinu fyrir einn milljarð á það ekki að hindra það að almennilegar svæðisstöðvar geti starfað úti á landi og starfsemina þar. Ég velti fyrir mér fyrst framkvæmdarvaldið fer fram á svo mikinn niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu: Er bara ekki orðið tímabært (Forseti hringir.) að leggja Rás 2 niður og leyfa þeirri beinagrind af Ríkisútvarpinu sem það er úti á landsbyggðinni að lifa?