141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

framhald stjórnarskrármálsins.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Manni fallast algerlega hendur í viðræðum við stjórnarliða um þetta mál og við hæstv. forsætisráðherra. Það átti einfaldlega að hlusta eftir tillögum Feneyjanefndarinnar en engu að síður var málið tekið áfram og inn í þingið. Nú segir hæstv. forsætisráðherra: Það er búið að taka tillit til allra þeirra atriða sem Feneyjanefndin hefur áhyggjur af. (Gripið fram í.) Á hinn bóginn hefur formaður nefndarinnar sagt: Við geymdum öll þau álitamál.

Það sem eftir stendur er þetta: Það hefur ekki verið hlustað á álit íslenskra fræðimanna á þessu sviði. (Gripið fram í.) Það hefur langt í frá verið tekið tillit til athugasemda sem fram koma hjá Feneyjanefndinni og takið eftir að þetta eru alvarlegar athugasemdir um grundvöll málsins. Það sem meira er, það hefur verið undið ofan af ábendingum lögfræðinganefndarinnar sem fékk málið til yfirferðar áður en frumvarpið var lagt fram á þinginu. Það hefur sem sagt ekki verið hlustað á nokkurn einasta mann sem hefur haft með þetta mál að gera og fengið það til umsagnar með þeim hætti (Forseti hringir.) sem vænta má af þingi sem tekur málið alvarlega.