144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Allan daginn í gær ræddum við bréf utanríkisráðherra eins og öllum er kunnugt um þar sem menn væntu þess að fá einhverjar skýringar á aðdraganda bréfsins. Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að fá að vita hver aðkoma stjórnarþingmanna var að gerð þessa bréfs og undirbúningi hvað varðar málsmeðferðina alla. Við vitum um aðkomu stjórnarandstöðunnar. Hún var engin. Það voru engar upplýsingar sendar þangað, við heyrðum um málið í fjölmiðlum þegar búið var að afhenda bréfið erlendis.

Ég skora á stjórnarþingmenn að koma í umræðuna og svara spurningum um það hvenær ákvörðun var tekin um að senda bréfið en að flytja ekki aftur þingsályktunartillögu um málið. Hver og hverjir tóku ákvarðanir og hvar var fjallað um þær, jafnstórt utanríkismál og þarna er um að ræða sem er aðildarumsóknin? Hver var aðkoma ESB að undirbúningi bréfsins? Sagt var að einhver samtöl hafi átt sér stað en talað er um það í bréfinu að nýlega höfðu Ísland og ESB með sér samráð um stöðu mála í aðildarferlinu. Komu stjórnarþingmenn eitthvað að þessu? Mér finnst skipta máli að menn komi heiðarlega fram og segi okkur hvernig var að þessu staðið. Það er mikilvægt líka hver samdi þetta bréf. Auk þess verðum við að krefjast þess, og gengið verður hart eftir því, að öll gögn verði lögð fram, skráning á símtölum, skráning á minnisblöðum frá fundum sem hafa átt sér stað, hvaða plagg var lagt fram í ríkisstjórn þegar þessi ákvörðun var tekin, vegna þess að í vinnureglum núverandi ríkisstjórnar á að skrásetja bæði símtöl og fundi í öllum ráðuneytum.

Við höfum heyrt í sambandi við lekamálið að það brást illilega þar. Krafan hlýtur þar af leiðandi að vera meiri, menn hljóta að hafa vandað sig enn þá meira (Forseti hringir.) þegar þetta mál var til afgreiðslu. Ég skora (Forseti hringir.) á stjórnarþingmenn að koma hér inn í umræðuna (Forseti hringir.) og svara þessum spurningum og leyfa okkur að heyra hvernig þetta gekk fyrir sig.