132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð á ekki aðild að Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, fulltrúi okkar á ekki sæti í Íslandsdeildinni. En við fylgjumst með starfi hennar að sjálfsögðu, bæði í utanríkismálanefnd Alþingis og síðan einnig þegar þessi mál bera á góma á Alþingi.

Vestnorræna ráðið hefur starfað í yfir tvo áratugi. Það var sett á laggirnar árið 1985 og gekk fyrst undir heitinu Vestnorræna þingmannaráðið þar til nafngiftinni var breytt árið 1997 í Vestnorræna ráðið. Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila, en á þessa leið segir í skýrslu Íslandsdeildarinnar.

Í skýrslunni er vísað í þá málaflokka sem ráðið hefur beitt sér í og kemur fram að fiskveiðimál ber hátt að sjálfsögðu, menningarmálin einnig. Á það er minnt að ekkert þessara landa á aðild að Evrópusambandinu. Engu að síður hefur Vestnorræna ráðið beint sjónum sínum að Evrópusambandinu vegna þess að stefna Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum skiptir öll þessi lönd máli og vakin athygli á því að mikilvægt sé að þessi lönd reyni að standa saman og tala einni röddu og hafa þannig áhrif á málefni Evrópusambandsins.

Hér var sú hugmynd reifuð að leitað yrði eftir aðild Noregs að þessu samstarfi. Ég þori ekki að hafa miklar skoðanir á því, hef ekki hugsað það mál til hlítar en vil minna á að það eru fleiri aðilar sem hafa horft til samstarfs á þessum slóðum og nefni Skotland í því sambandi. Íslenskir alþingismenn, undir forustu þáverandi hæstv. forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, fóru til Skotlands í boði skoska þingsins í fyrravor og þar fundum við fyrir mjög miklum hlýhug af hálfu Skota í Íslands garð og við hittum þar marga þingmenn. Eins og heyra má átti ég sæti í þeirri nefnd sem fór til Skotlands og margir þingmenn skoskir sem reifuðu hugmyndir um nánara samstarf Íslands og Noregs þó að ekki væri sérstaklega horft til þessa vettvangs.

Hæstv. forseti. Ég kom ekki hingað upp til þess að hafa langt mál um skýrsluna, fyrst og fremst lýsa ánægju okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði með þetta samstarf á norðurslóðum milli Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga en jafnframt vekja athygli á því að ástæða er til að horfa til annarra þjóða einnig, Norðmanna, og þá ekki síður Skota sem hafa sýnt samstarfi við Íslendinga mikinn áhuga.