138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

sekt vegna óskoðaðra bifreiða.

[11:01]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég vek athygli á því að ökutæki eru skoðunarskyld en þetta fer samkvæmt umferðarlögum sem heyra undir samgönguráðherra. Sýslumenn fara með framkvæmdarvald ríkisins í héraði og eru vissulega undirstofnanir dómsmálaráðuneytisins þannig að ég get nú svarað þessu að einhverju marki. Ef ökutæki er ekki skoðað sendir Fjársýslan bréf um næstu mánaðamót eftir að það kemur í ljós. Því bréfi fylgir sekt sem er 15.000 kr. Það er unnt að fara innan mánaðar að láta skoða ökutækið og þá lækkar þessi sekt um helming.

Ef það er ekki greitt innan mánaðar sendir sýslumaður ítrekun. Það gerist eftir um það bil tvo og hálfan mánuð. Þá hækkar gjaldið, þessar 15.000 kr., um 250 kr. Ef það er ekki greitt er send sérstök greiðsluáskorun og við bætist þá birtingarvottorð upp á 1.500 kr. þannig að það eru 15.250 og 1.500 og þar myndast þá lögveð í bifreið. Til viðbótar þessu hefur sýslumannsembættið upplýst mig um að þeir hafi sent fjölda SMS til þeirra sem eiga tjaldvagna og fellihýsi vegna þess að þeir voru ekki alveg vissir um hvort fólk gerði sér grein fyrir þessu. Ég vil segja að lokinni skoðun minni á þessu máli að þarna er farið frekar varlega í innheimtuaðgerðir og fólk látið vita af þessu. Það er síðan annað mál hvort það stendur eitthvað til að breyta skoðunarskyldu ökutækja, en svona lítur þetta a.m.k. út.