153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Nú erum við að fara greiða atkvæði um þær tvær einu breytingarnar sem ég sé í þessu nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem svona mögulega, hugsanlega, með lögfræðilegri túlkun, gætu verið örlítið til bóta, smá skaðaminnkun á þeim hryllingi sem er verið að samþykkja hérna á annað borð. En er það víst? Nei, það er ekki alveg víst vegna þess að við í allsherjar- og menntamálanefnd fengum þessar breytingar klukkan 10 eða 11 að kvöldi daginn áður en nefndarfundurinn var haldinn þar sem málið var afgreitt út úr nefnd. Við óskuðum eftir því að fá umsagnir aðila á borð við Rauða krossinn eða aðra, sem hafa mikla sérþekkingu og hefðu þá kannski tíma til að ígrunda það, um þessar breytingartillögur til að útskýra fyrir okkur nákvæmlega hvaða áhrif þetta gæti haft og hvort þetta væri raunverulega til bóta. Það er því ekkert ljóst hvort þetta sé til bóta og miðað við hinar sporslurnar hérna, einhverjar tillögur um að það eigi ekki að láta fólki blæða út úti á götu og annað, sem er sjálfsagt, og ítreka annað sem stendur í lögunum nú þegar, (Forseti hringir.) þá leyfi ég mér að efast um að þetta sé til bóta. Þess vegna sit ég hjá.