136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er ekki í fyrsta skiptið á dagskrá Alþingis í vetur. Það er stórt í sniðum og varðar íslensku þjóðina miklu. Það má segja að að mörgu leyti hafi lítið hreyfst eða þokast í þessu máli undanfarna tvo mánuði og ég ætla að leyfa mér að gagnrýna forustu fráfarandi ríkisstjórnar fyrir það hvernig á þessu máli var haldið.

Hér hefur m.a. verið vakið máls á því að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hafi aldrei rætt við breskan starfsbróður sinn eftir að hryðjuverkalögunum var beitt og það var m.a. staðfest í viðtali við hv. þm. Geir H. Haarde í breska sjónvarpinu nýverið. Þar sagði hann jafnframt að hann hefði ef til vill átt að gera það og ég tel að það hafi verið mikil mistök af hálfu íslenskra stjórnvalda að leggjast ekki í diplómatískan víking, ef svo má segja, strax og þetta mál kom upp til að reyna að forða því sem unnt væri að forða á þeim tímapunkti til að reyna að koma samskiptum Íslands og Bretlands í eðlilegan farveg. En því miður var það ekki gert.

Þessu til viðbótar koma síðan ummæli seðlabankastjóra um að hann einn hafi vitneskju um það hvað rak Breta til þess að beita hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum. Þær upplýsingar fást hins vegar ekki. Það er auðvitað algerlega óviðunandi að við svo sé búið.

Ég hef látið það koma fram að þetta mál hefur verið á vettvangi utanríkismálanefndar hér í þinginu og verður það áfram. Ég mun gera ráðstafanir samkvæmt ósk þingmanna til að fá ráðherra, bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, á fund (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar til að gera grein fyrir því máli. Ég vonast til þess að það geti orðið fyrr en síðar.