143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[17:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vænti þess að geta mælt fyrir því máli innan mjög skamms og treysti mér ekki til að gera samanburð á breyttu fyrirkomulagi hvað þetta snertir. Hins vegar er hægt að taka undir með hv. þingmanni hvað það snertir að við þurfum sem allra fyrst að fá þessi uppgjör vegna liðins tíma inn í þingið til að fá í þinginu heildarmynd af nýliðnum árum á meðan við fetum okkur inn í næstu uppgjörsár í ríkisfjármálunum sem þar fylgja á eftir.

Það væri til dæmis afskaplega einkennilegt að vera hér að ræða um lokafjárlög ársins 2000 og betra að við værum að ræða lokafjárlög ársins 2013, sem er tiltölulega nýliðið, og þá gætum við tekið umræðu sem væri í einhverju samhengi við það sem stæði næst fyrir dyrum hjá okkur, að taka saman fjárlög fyrir árið 2015.

Varðandi það sem spurt er um sérstaklega, hvernig uppgjörið á liðnum rekstrarárum muni fara fram samkvæmt nýju frumvarpi um opinber fjármál, skal ég taka þá umræðu þegar málið kemur inn í þingið sem ég vonast til að verði á næstu dögum.