Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

fjármögnun heilsugæslu.

[15:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir að taka þetta mál á dagskrá, það er nauðsynlegt fyrir okkur að ræða heilbrigðiskerfið. Það er sannarlega rétt að það eru of langir biðlistar og það er búið að vera mikið álag og er mikið álag á heilbrigðiskerfið. Það birtist m.a. í þessari bið, tölum bara um það eins og það er. En við höfum, og það kom fram í máli hv. þingmanns, við fjárlagagerðina bætt verulegum fjármunum í málaflokkinn, 12 milljörðum, á milli umræðna. Það hefur aldrei verið jafn há fjárhæð sem hefur komið hér á milli umræðna og er staðfesting á því að við viljum vinna á þessu og standa með heilbrigðiskerfinu í þessu mikla álagi.

Þegar við ræðum þessa hluti er tvennt sem við verðum að hafa í huga, vil ég meina. Í fyrsta lagi er eftirspurn gjarnan meiri en framboðið. Verðbólga er nú mikið rædd hér í þessum þingsal og við erum alltaf að kljást við þjóðhagsjöfnuð og erum alltaf að leita að jafnvægi. Í heilbrigðiskerfinu erum við alltaf að kljást við aðstæður þar sem eftirspurn er meiri en framboð, það kemur m.a. fram í þessu viðtali sem hv. þingmaður vísar til. Í öðru lagi þá verða bæði fjármunir, fjármagn og mannauður alltaf takmarkandi þættir. Þá verðum við að fara að huga að nýtingu og afköstum, árangri og gæðum og því hvernig einstakir þættir þjónustunnar vinna saman. Við ætlum heilsugæslunni gífurlega mikilvægt og viðamikið hlutverk og við þurfum að tryggja samspilið við sjálfstætt starfandi lækna, við spítalana og heilbrigðisstofnanirnar og í því erum við að vinna. (Forseti hringir.) Ég skal koma aðeins betur inn á mönnunarþáttinn en við erum að setja 2 milljarða aukalega inn í heilsugæsluna núna á þessu ári.