154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

aðkoma ríkisins að gerð kjarasamning.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Aðgerð sem þessi, sem snýr að tekjulægstu foreldrum og börnum þeirra, ég held að það sé og fullyrði að það er alger þverpólitískur stuðningur um að því sé mætt. Reyndar er það þannig að sveitarfélög gera það hvert með sínum hætti. Þessi börn eru gripin úti um allt land inni í skólakerfinu. Við erum með um 4% barna sem eru við fátæktarmörk þannig að það þýðir að 96% þeirra eru það ekki. Það er hægt að ná þessu markmiði alveg skýrt og ég held að það sé alger samstaða um það.

Það sem hefur verið rætt varðandi þessar skólamáltíðir er tilraunaverkefni út þennan samningstíma þar sem meta ætti árangurinn þegar við erum komin hálfa leið en sjálfstjórnarvaldið er hjá sveitarfélögunum og allt hangir þetta saman. Þegar spurt er hvaða áhrif það hefur að auka útgjöld ríkisins um gríðarlega mikla fjármuni þá held ég að það liggi í augum uppi að þegar við erum með ríkisfjármálin eins og þau eru, skuldir, halla, (Forseti hringir.) þá hlýtur að vera augljóst að það þarf að grípa til annarra ráðstafana (Forseti hringir.) til að mæta þessum útgjöldum.