154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[16:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að óska hv. þm. Katrínu Sigríði J. Steingrímsdóttur innilega til hamingju með þetta frumvarp um það áhugaverða efni sem dánaraðstoð er. Sjálf hef ég haft þetta mál á dagskrá frá því að ég tók sæti á þingi. Það var einmitt mitt fyrsta þingmál að leggja fram þingsályktunartillögu um dánaraðstoð árið 2017 og ég hef gert það á hverju ári síðan með einhverjum hætti. Það er alveg ljóst að á síðustu árum, á þeim tíma síðan ég tók sæti hér á Alþingi, hefur þessi umræða þróast mikið, sem betur fer. Ég ætla fyrst og fremst að þakka félagasamtökunum Lífsvirðingu fyrir það en ekki síður fjölmiðlum sem hafa iðulega sýnt þessu máli mikla athygli. Ég vil líka meina að það að hafa tekið umræðu hér í þingsal allnokkrum sinnum um dánaraðstoð sé líka leið að því að þroska þessa umræðu og auðvitað vona ég að sem flestir séu komnir á þá skoðun að dánaraðstoð, með ströngum skilyrðum, eigi að vera leyfileg á Íslandi. Við sjáum það alla vega í skoðanakönnunum, sem hafa verið framkvæmdar allnokkrum sinnum, að almenningur er mjög jákvæður gagnvart dánaraðstoð.

Eitt af því sem mér varð ljóst þegar ég byrjaði að kynna mér þetta mál og vinna með það eftir ég tók sæti hér á þingi var að það væri nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsmenn væru líka jákvæðir gagnvart þessari aðstoð, þessari heilbrigðisaðstoð vil ég meina, vegna þess að það er ekki hægt að innleiða lög um dánaraðstoð öðruvísi en að um það ríki tiltölulega mikil sátt í samfélaginu og innan heilbrigðiskerfisins sjálfs. Á þeim árum þegar ég var með þingsályktunartillögu um þessi efni og var að óska eftir skoðanakönnunum og velta upp ýmsum spurningum um málið þá hafði ég ekki fundið aðrar upplýsingar en þær sem höfðu komið fram í ritgerðum hjá háskólanemum sem sýndu að það var á bilinu 3–8% stuðningur hjá heilbrigðisstarfsfólki við dánaraðstoð. Það væri ekki hægt að lögleiða dánaraðstoð með það litlum stuðningi frá heilbrigðiskerfinu sjálfu eða þeim sem starfa innan þess og þess vegna voru það ofboðslega ánægjuleg tíðindi fyrir mig og þá sem aðhyllast löggjöf um dánaraðstoð að í skýrslu sem heilbrigðisráðherra skilaði mér og fleiri þingmönnum, þar sem við óskuðum eftir því að framkvæmd væri skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna, sáum við að stuðningur við dánaraðstoð er orðinn verulegur. Þannig kemur fram í þessari skýrslu, sem er frá árinu 2023, að 56% lækna, 86% hjúkrunarfræðinga og 81% sjúkraliða eru alfarið mjög eða frekar hlynnt því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi. Þetta er ofboðslega mikil breyting og þess vegna sagði ég eftir að þessar niðurstöður komu fram: Jæja, nú erum við líklega tilbúin að stíga þetta skref.

Við heyrum það reglulega í fréttum að fleiri og fleiri lönd eru að feta sig þessa braut. Ég hef aðhyllst hollensku leiðina, ef svo mætti að orði komast, og mér sýnist þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar vera af sama meiði. Hollendingar voru með þeim fyrstu sem heimiluðu þetta og þar er frekar stíft kerfi utan um þetta þar sem heimilislæknir viðkomandi einstaklings þarf að heimila þetta og svo annar að skrifa upp á og aðgerðin er framkvæmd af lækni. Það eru auðvitað mismunandi leiðir sem löndin hafa farið í þessu en þetta er sú leið sem mér hefur hugnast einna best. Það þýðir í rauninni að það er eingöngu hægt að veita dánaraðstoð fyrir þá sem eru mjög langt leiddir af sjúkdómi sem mun draga viðkomandi til dauða og að læknir er í raun að skrifa upp á það að ekki sé mögulegt að lina þjáningar viðkomandi einstaklings nægilega. Það er kannski sá rammi sem ég myndi vilja setja utan um það að í slíkum tilfellum getum við boðið upp á dánaraðstoð.

Ég hef að sjálfsögðu líka rekið mig á það, eftir að hafa lagt fram þessi mál og farið að taka þátt í þessari umræðu, að þetta er auðvitað ofboðslega stór siðferðisleg spurning og það er að ofboðslega mörgu að hyggja í þessu. Þannig veit ég að umræðan í Hollandi hefur farið að snúast um það hvort það megi veita dánaraðstoð fyrir þá sem eru yngri en 18 ára, þ.e. börn. Það hafa vaknað spurningar hjá sjúklingasamtökum um hvaða áhrif þetta getur haft. Getur þetta orðið til þess að aðstandendur eða samfélagið sjálft ýti einstaklingum út í að taka einhvers konar ákvörðun sem er kannski ekki endilega þeirra og vilji þeirra? Fleira mætti svo sannarlega nefna í þeim efnum. Það er alveg ljóst að við erum auðvitað að tala um ofboðslega stóra siðferðislega spurningu. Þess vegna hef ég í minni umræðu ítrekað að það sé nauðsynlegt að hafa mjög skýran og afmarkaðan ramma í kringum þetta. Ég aðhyllist að það snúi þá eingöngu að þeim sem eru dauðvona, með sjúkdóm sem læknar og heilbrigðisyfirvöld segjast ekki geta læknað, ólæknandi sjúkdóma, og séu kvaldir. Það sé þá frelsi þeirra einstaklinga sem eru í þeirri hryllilegu stöðu að geta valið sjálfir hvenær og hvar þeir kveðja þetta jarðríki.

Ég er því hlynnt því að þetta mál fái þinglega meðferð og er spennt að sjá hvernig viðbrögðin og umsagnir verða um málið. Sjálf er ég með þingsályktunartillögu um sama efni þar sem ég legg til að heilbrigðisráðherra verði falið að mynda löggjöf utan um dánaraðstoð og horfi þá sérstaklega til hollensku leiðarinnar. Mig langar kannski að segja það, virðulegur forseti, að mér fyndist eðlilegt í þinglegri meðferð að sú þingsályktunartillaga kæmist á dagskrá hið allra fyrsta því að hún var lögð hér fram í nóvember en þetta frumvarp er nýkomið fram og mér fyndist eðlilegt varðandi vinnu í velferðarnefnd að þessi mál væru þá til umfjöllunar á sama tíma. Ástæðan fyrir því að ég hef enn ekki lagt fram frumvarp eins og þetta hér er að það ber flestum saman um að fyrir utan þær siðferðilegu spurningar sem upp kunna að koma er það líka lagatæknilega flókið. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég hef ekki náð að lúslesa þetta frumvarp með tilliti til þess hvort ég telji það ná utan um öll þau lög sem slík breyting þyrfti að gera. Það var ástæðan fyrir því að ég taldi að það væri kannski eðlilegra að ráðuneytinu, með öllum þeim sérfræðingum sem þar eru, væri falið að skrifa slíka lagaumgjörð en kannski ekki síður vegna þess að ég held líka að það sé mikilvægt að fleiri komi að löggjöfinni.

Ég lagði til að mynda fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra á síðasta þingi þar sem ég var að spyrja um afstöðu ráðherra til þess að heimila dánaraðstoð. Þar var auðvitað eins og oft er ýmislegt tínt til hvað ráðuneytið hefði nú þegar gert í að svara mínum fyrirspurnum og bregðast við skýrslubeiðnum. En þar segir líka, virðulegur forseti:

„Ráðherra telur mikilvægt að umræða fái að þróast áfram á uppbyggilegan og opinn hátt. Síðan þarf að halda áfram með þá vinnu sem nauðsynleg er áður en hægt er að taka afstöðu til þessa viðkvæma og mikilvæga málefnis.“

Þá spurði ég líka hvort það hafi átt sér stað einhver vinna í ráðuneytinu í tengslum við að heimila dánaraðstoð eftir að ráðherra skilaði skýrslu um dánaraðstoð til þingsins á 150. löggjafarþingi. Og þar segir m.a. að ráðherra telji aftur á móti gott að þessari fyrirspurn hafi verið beint til hans því að það sé tímabært að huga að næstu skrefum. Ég verð að viðurkenna að ég er ánægð með viðhorf hæstv. ráðherra til þessa efnis, að hann telji tímabært að huga að næstu skrefum og telji æskilegt að halda áfram með þessa vinnu sem nú hefur staðið í einhvern tíma. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hér, þingheimur, sameinumst um það að hleypa slíkri vinnu af stokkunum.

Ég hef engu að síður áttað mig á því, og ég hef mikinn skilning á því, að það eru auðvitað skiptar skoðanir um dánaraðstoð per se hér í þessum þingsal og hef ég oftar en ekki átt samtöl við þingmenn um þetta mál, bæði hér í gegnum ræðustólinn og annars staðar. Ég hef skilning á þeim sjónarmiðum en mér finnst engu að síður líka mikilvægt að hugsa til þess að í dag er dánaraðstoð leyfð í fleiri og fleiri löndum. Það er til að mynda þannig að Sviss hefur heimilað dánaraðstoð og þú þarft ekki að vera ríkisborgari í Sviss til að njóta þeirrar aðstoðar. Það er í rauninni hægt að segja að þar hafi til að mynda byggst upp einhvers konar ferðaþjónustuiðnaður í kringum þessa heilbrigðisþjónustu, dánaraðstoð, og ég veit ekki hvað mér finnst um það. Þetta er aftur líka stór siðferðileg spurning. Sum þau ríki sem hafa síðar tekið upp löggjöf hafa verið að glíma við það að einstaklingar, hvort sem það hafa verið nánustu ættingjar eða jafnvel heilbrigðisstarfsmenn, hafa verið að bregðast við hinstu ósk sjúklingsins og með einhverjum hætti aðstoðað hann við að kveðja þetta lífríki. Það er óheimilt samkvæmt íslenskum lögum og reyndar lögum flestra ríkja í kringum okkur en það er oft eftir svoleiðis atvik að umræðan fer á fullt og stjórnvöld bregðast við. Þannig er t.d. sagan um hina hollensku leið en hún er orðin býsna gömul.

Ég held að það sé líka mikilvægt að velta fyrir sér: Hvað ef íslenski lagaramminn tekur ekki utan um beiðnir sem þessar þegar lagarammi víða annars staðar er farinn að gera það og við sjáum mörg dæmi þess að fólk vill ekkert annað en að geta brugðist við hinstu ósk ættingja sinna eða sjúklinga? Þess vegna tel ég mikilvægt að við þróum okkar lagaramma í þessa átt. En auðvitað er algjört grundvallaratriði í þessari umræðu að við séum að tala um vilja einstaklingsins og að það sé algjörlega ótvíræður og skýr vilji viðkomandi einstaklings að fá slíka aðstoð við að kveðja þetta líf.

Eins og ég segi, virðulegur forseti, þá óska ég hv. þingmanni til hamingju með þetta frumvarp. Það er gott að það eru margir sem vilja taka þessa umræðu, hvort sem er hér á Alþingi eða úti í samfélaginu og ég styð það heils hugar. Ég verð að segja að ég held að við séum tilbúin til að fara að stíga næstu skref í þessum efnum á sama tíma og ég held að við þurfum líka að sýna varkárni og tryggja að sem flestir séu með okkur í því að móta þær reglur og þá horfi ég auðvitað fyrst og fremst til heilbrigðisstarfsmanna heilt yfir en ekki síður er mikilvægt að lagaumhverfið sé mjög skýrt og að þar séu ekki einhvers konar glufur sem geta komið sér illa fyrir þá einstaklinga sem annaðhvort þiggja aðstoðina eða veita hana. Að því sögðu hlakka ég til að takast á við þetta verkefni í hv. velferðarnefnd en beini þeim tilmælum jafnframt til forseta að það væri æskilegt að annað mál, sem sagt þingsályktunartillaga mín um nákvæmlega sama efni, fengi umfjöllun þannig að það væri hægt að fjalla um málin samhliða inni í nefndinni.