138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í lögum um endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja sem öðluðust gildi 16. júlí árið 2009 og allir stjórnmálaflokkar áttu aðild að koma fram skýr sjónarmið um hvernig standa skuli að endurskipulagningu fyrirtækja. Þar eru aðalsjónarmiðin þau að það eigi að tryggja skjóta úrlausn fjármálafyrirtækja á skuldavanda rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, tryggja skuli með hlutlægum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti skuldameðferð fyrirtækjanna að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og samkeppni. Þá kom fram í nefndaráliti sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka undirrita að þeir sem hafi misst fyrirtæki fái að jafnaði tækifæri til að eignast þau aftur.

Þetta virðist ekki hafa verið haft til hliðsjónar í þeirri vinnu sem fram hefur farið síðasta tæpa árið nema að mjög litlu leyti. Auk þess höfum við heyrt hér í sölum hins háa Alþingis að haldið hafi verið fram nýjum sjónarmiðum sem eiga rætur í hugmyndum manna um endurbætt siðferði í íslensku atvinnulífi, hugmyndum eins og að þeir sem hafa tapað peningum eigi ekki að taka þátt í íslensku atvinnulífi, þeir sem hafa grætt peninga eigi ekki að taka þátt í atvinnulífinu og að þeir sem hafa stundað viðskipti erlendis eigi ekki að taka þátt í atvinnulífi. Því er ekki nema von að maður spyrji hverjir eigi að fá að taka þátt í íslensku atvinnulífi.

Er ekki rétt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra birti lista yfir þá sem mega ekki stunda atvinnurekstur miðað við hvernig sumir þingmenn hafa talað, svarta listann svokallaða? Eða er listinn yfir þá sem mega stunda atvinnurekstur miðað við málflutning sumra kannski styttri?