149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

sjúkratryggingar.

644. mál
[11:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn þakka ég fyrir fyrirspurnina. Fram hefur komið í samskiptum milli ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé hægt að verða við ábendingu Persónuverndar í þessu tilviki. En mér finnast þau skoðanaskipti sem við eigum í hér vera mikilvægur afrakstur þess að samráðsgáttin er vettvangur sem verið er að nota. Fyrir örfáum árum var það þannig að fyrstu viðbrögð voru sýnileg þingmönnum í raun og veru þegar málin voru komin til þinglegrar meðferðar. Nú er það svo að þingmenn geta séð á mun fyrri stigum nákvæmlega hvaða atriði það eru efnislega sem orka tvímælis og þarf að fara sérstaklega í saumana á.

Samkvæmt mínum upplýsingum úr ráðuneytinu er þetta ástæðan sem ráðuneytið mat svo að kæmi í veg fyrir að verða að ábendingum Persónuverndar. Við bíðum eftir því hvernig þessari ábendingu reiðir af í meðförum hv. velferðarnefndar. En löggjafarvaldið er hjá Alþingi.