154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka til máls undir þessum dagskrárlið. Það er mikilvægt að fá öll sjónarmið fram þegar kemur að þessu lagafrumvarpi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum einmitt að skoða vel stöðu fatlaðs fólks undir þessu lagaákvæði, ef að lögum verður, og því hlakka ég til að sjá réttindasamtök á borð við ÖBÍ og Þroskahjálp senda inn umsögn til nefndarinnar.

Mig langaði svolítið að snerta á geðheilbrigðisvinklinum, þegar kemur að andlegum sjúkdómum. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar séu ólæknandi sjúkdómur og ómeðhöndlanleg og óbærileg þjáning og ég tel að geðsjúkdómar falli ekki þar undir. Við vitum nú þegar að sjúkdómar sem ekki eru geðræns eðlis hafa að miklu leyti þekkta meðferð eða þekkta lækningu en það er alls ekki tilfellið hjá öllum. Þegar kemur að geðsjúkdómum er sagan svolítið önnur. Auðvitað er fólk sem bregst misvel við þeirri meðferð sem er veitt og meðferð getur tekið lengri tíma fyrir fólk sem þiggur meðferð. En við vitum hins vegar að það eru til gagnreyndar meðferðir við nánast öllum ef ekki öllum geðrænum kvillum, hvort sem það sé lyfjameðferð, samtalsmeðferð, virknimeðferð eða eitthvað annað slíkt. Mörg hafa áhyggjur af geðheilbrigði og telja að við séum þá að tala um fólk sem er í sjálfsvígshættu og við þau vil ég segja að við þurfum alltaf að vera vonarmegin í umræðum um sjálfsvíg og ég tel að frumvarp þetta um dánaraðstoð falli ekki að slíku.