133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft að árétta það sem ég sagði. Ég var að tala um verkefni alþjóðasamfélagsins og ég var að tala um að það væri nauðsynlegt og skylt að við tækjum þátt í verkefnum alþjóðasamfélagsins sem miða að því að þjóðir og íbúar Íraks fái fullt sjálfsforræði og frið sem allra fyrst og komið verði í veg fyrir átök við Íran, sagði ég reyndar.

Ég vil aðeins endurtaka að það er greinilegt að hv. þingmenn sem hafa talað hafa ekki velt fyrir sér eðli þessa plaggs sem kallað er „listi um hinar staðföstu þjóðir“. Þær upplýsingar sem ég bar hér fram komu þeim mjög á óvart og ég hvet þá einfaldlega til að kynna sér málið betur. Það á að svara þessum svokallaða lista með pólitískum yfirlýsingum stjórnmálamanna. Það er fullnægjandi. Það hef ég gert og það ætlum við framsóknarmenn að gera á flokksþingi okkar á morgun. Það á ekki að sýna þessu plaggi þá virðingu að það hljóti hér eitthvert lögformlegt gildi í meðförum Alþingis.