133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[18:18]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ákaflega fróðlegar umræður sem hér hafa átt sér stað. Bara til að undirstrika staðreyndirnar er rétt að rifja upp að það liggur fyrir skýlaus vilji Framsóknarflokksins um það hvernig ákvæði í stjórnarskrá ætti að líta út. Frá því var gengið í auðlindanefndinni á sínum tíma þar sem fulltrúi Framsóknarflokksins ekki bara studdi það, heldur samdi það. Það var alveg á kláru hvernig það ætti að vera. Sú tillaga var síðan staðfest af starfshópi stjórnarskrárnefndar. Þetta eru engin leyndarmál, um þetta geta menn allt saman lesið á heimasíðu stjórnarskrárnefndarinnar. Þar er líka að finna þá tillögu sem stjórnarskrárnefnd sammæltist um að varðaði breytingar á stjórnarskránni í framtíðinni. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ætti að lesa þetta.

Þar eru tvær leiðir lagðar til í sama ákvæði. Í fyrsta lagi er alveg rétt hjá hv. þingmanni að Sjálfstæðisflokkurinn í núverandi stærð mundi hafa neitunarvald hér varðandi aðra leiðina, þ.e. ef þriðjungur þingmanna leggst gegn stjórnarskrárbreytingu fer hún ekki rakleiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá fer hún hins vegar þá leið sem nú þegar er fyrir hendi, þ.e. samþykkt á þingi í gegnum kosningar, aftur samþykkt á þingi og fer þá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að sú tillaga sem liggur fyrir af hendi nefndarinnar komi í veg fyrir að mál komist í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þvert á móti tryggir hún þann möguleika að hún komist mun fyrr í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með að stjórnarskrárbreyting yrði að veruleika en við núverandi aðstæður, svo fremi sem tveir þriðju þingsins samþykki. Ef það er bara einfaldur meiri hluti er það sem sagt sú leið sem nú þegar er í gildi og endar með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessu vildi ég bara koma til skila, frú forseti, og þetta er hægt að lesa á heimasíðu nefndarinnar.