133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[18:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að gera athugasemd við orð hæstv. ráðherra varðandi hinar sagnfræðilegu útskýringar. Þær tilraunir sem gerðar voru af hálfu íslenskra stjórnvalda til að komast undan því að innleiða tilskipunina um sameiginlegan raforkumarkað voru ef einhverjar afar máttlausar. Hér stóðu þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í pontu dögum saman, liggur mér við að segja, til að verja þá niðurstöðu að ríkisstjórnin hefði viljað innleiða tilskipunina.

Á sama tíma stóðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og andmæltum stjórnarliðum kröftuglega með rökum sem eru sambærileg við þau sem færð voru fram hér í stuttu máli af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni í ræðu áðan, þ.e. að það hafi frá upphafi verið vanhugsað af hálfu íslenskra stjórnvalda að undirgangast tilskipunina. Enda sýnir það sig þegar búið er að innleiða hana og við erum búin að breyta raforkulögum okkar í þá veru sem við gerðum að það er ekki til hagsbóta fyrir neytendur.

Það er sem sagt að koma á daginn nákvæmlega það sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðum við frá fyrsta degi. Tilskipunin hefur ekki verið hagfelld neytendum á Íslandi og þær landfræðilegu forsendur sem stjórnarliðar töldu vera fyrir því að innleiða hana eru ekki til staðar. Það er mergurinn málsins.