143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[14:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það gerist ekkert allt of oft að ég sé algerlega sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur en ég er það að þessu sinni. Eiginlega má segja að ræða hv. þingmanns sé ræðan sem ég ætlaði að halda. (Gripið fram í: … aftur.) Það er ánægjulegt þegar maður getur fundið sameiginleg stef með fólki úr öllum flokkum.

Ég er svo hjartanlega sammála þessu um flækjustigið í kringum náttúrupassann. Ég hef rætt mjög mikið um að mér finnist leiðin sem hv. þingmaður mælti með það eina skynsamlega í stöðunni. Eins er þetta mjög athyglisvert með allar bílaleigurnar og hvernig það brennur við að samlandar mínir geri allt sem þeir mögulega geta til að komast yfir á þessi svokölluðu gráu svæði.

Ég legg bara áherslu á að mér finnst mjög mikilvægt að aðbúnaður ferðamanna sé betri, sér í lagi úti á landi þar sem oft er langt í aðra þjónustu. Það er þó eitt jákvætt sem Íslendingar hafa getið sér orð fyrir til sveita, það að taka vel á móti gestum. Það finnst mér að þurfi að endurspeglast á þessum ferðamannastöðum. Þrátt fyrir að þróunin hafi verið á þann veg að það komi ekki eins mikið frá hverjum ferðamanni fáum við samt umtalsverðar tekjur af ferðamannaþjónustunni sem á að sjálfsögðu að nýta í uppbyggingu á ferðamannastöðunum.