154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

lögbrot og eftirlit á innri landamærum.

[15:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr ráðherra hvað hann sé að gera í þessum málum til að halda uppi lögum í landinu, hvort það sé engin löggæsla í landinu. Jú, svo sannarlega er löggæsla í landinu og lögreglumenn þessa lands standa sig vel alla daga, allan sólarhringinn til að tryggja öryggi borgaranna og halda uppi allsherjarreglu og lögum. Nú er það svo að ég vil ekki tjá mig hér um einstök mál. Hins vegar þá er það eins og hv. þingmaður nefnir með öllu óásættanlegt að hingað geti fólk komið og komist hér ítrekað í kast við lögin og framið glæpi eða haft í hótunum. Við urðum sömuleiðis, eins og hv. þingmaður nefndi hér, vitni að í síðustu viku mikilli umræðu um mikla skipulagða brotastarfsemi sem er svo sannarlega raunin og lögreglan er að vinna dag og nótt við að uppræta það. Hún hefur fengið aukið fjármagn frá þinginu til að sinna þeim rannsóknum en eins og allir vita þá taka rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi langan tíma og það er mikil þolinmæðisvinna. Ég vil nota tækifærið og þakka lögreglunni fyrir vel unnin störf sem við sáum í síðustu viku. Við urðum sömuleiðis vitni að því í fréttum að hér voru einstaklingar sem höfðu uppi hegðun sem er með öllu óásættanleg. Ég tek undir það með hv. þingmanni og mun gera allt sem ég get og sem í mínu valdi stendur til þess, eins og ég sagði í upphafi, að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu.