131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Alþjóðaþingmannasambandið 2004.

576. mál
[16:48]

Frsm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2004. Íslandsdeildin var á síðasta ári skipuð þeim sem hér stendur frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Kristjáni L. Möller frá þingflokki Samfylkingarinnar og Hjálmari Árnasyni frá þingflokki framsóknarmanna. Ég var formaður og hv. þm. Hjálmar Árnason varaformaður. Ritari deildarinnar var Belinda Theriault.

Íslandsdeildin hefur verið ákaflega virk í starfi sambandsins. Við höfum fyrst og fremst einbeitt okkur að starfinu á vettvangi IPU og þeim ráðstefnum sem samtökin hafa haldið tvisvar á ári auk annarra funda. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur sinnt friðar- og öryggismálanefnd, Kristján L. Möller hefur setið í nefndum um lýðræði og mannréttindamál og sá er hér stendur hefur verið formaður nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, sem er ein af fjórum helstu nefndum Alþjóðaþingmannasambandsins.

Auk þeirra þinga sem ég nefndi áðan stendur sambandið fyrir nokkrum alþjóðlegum ráðstefnum og málstofum. Hv. þm. Hjálmar Árnason sótti ráðstefnu á vegum IPU um endurnýjanlega orkugjafa í Bonn. Sjálfur hafði ég ásamt skrifstofu IPU forustu um undirbúning sérstaks þingmannafundar í tengslum við UNCTAD ráðstefnuna í Sao Paulo í Brasilíu á sl. ári, enda féll efni hennar að starfi annarrar nefndar IPU sem ég er formaður fyrir. Auk þess að stjórna fundinum stýrði ég nefnd sem undirbjó ályktun fundarins. Á meðal helstu gestafyrirlesara á fundinum var hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, en þess má geta að hann var um tíma varaforseti IPU.

Íslandsdeildin hefur líka unnið í gegnum IPU að málefnum sem varða Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og tekið hefur verið upp formlegt samstarf með það fyrir augum að halda utan um þingmannasamstarf á þeim vettvangi. Þetta er mjög til góða og gæti að mínu mati orðið mjög góð fyrirmynd að öðru slíku samstarfi á þinglegum vettvangi innan vébanda stórra slíkra stofnana. Það er engin ástæða fyrir okkur að búa til batterí í kringum hinar stóru alþjóðastofnanir eins og Alþjóðabankann eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og hefur sannarlega verið vísir að. Eðlilegra væri að nýta það sem fyrir er og alþjóðleg þingmannasamtök á borð við Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) eru auðvitað mjög vel fallin til að halda utan um störf af því tagi.

Innan Alþjóðaþingmannasambandsins er til staðar mikil þekking, pólitísk þekking á álitamálum sem uppi eru eins og málum sem snúa að alþjóðlegum viðskiptum, þróunaraðstoð, alnæmisvandanum, upplýsingaskiptum milli þinga og þingmanna og almennri pólitískri stefnumótun. Það er líka ljóst að með þessu er hægt að auka tengsl þingsins og þingmanna við það sem verið er að gera á alþjóðlegum vettvangi eins og varðandi Alþjóðaviðskiptastofnunina. Þar er verið að taka ákvarðanir sem geta haft til lengri og skemmri tíma áhrif m.a. innan lands og þess vegna er mjög nauðsynlegt fyrir okkur að við sinnum þessu.

Alþjóðaþingmannasambandið hefur enn fremur verið að styrkja tengsl sín við Sameinuðu þjóðirnar og einmitt núna stendur yfir fundur þar sem verið er að minnast 10 ára afmælis Peking-fundarins varðandi kvennaráðstefnuna sem þar var haldin og fræg er. Frá okkar þingi sóttu allnokkrar þingkonur kvennaráðstefnuna í New York og þar fór fram dagsfundur á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins sem beinlínis var ætlaður til að kalla saman þingmenn sem á ráðstefnunni hafa verið.

Alþjóðaþingmannasambandið hefur áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum og hefur reynt að styrkja tengsl sín við þær. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að reyna að sinna því og Alþjóðaþingmannasambandið hefur m.a. efnt til sérstakra funda á haustin sem þingmenn sem sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafa átt þess kost að koma til.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að fara nánar út í efnisatriði þeirrar ítarlegu skýrslu sem við höfum undirbúið sem störfum innan Alþjóðaþingmannasambandsins. Þar getur hins vegar að líta mikinn fróðleik um það starf sem þar hefur verið unnið. Á því má sjá að það hefur verið komið mjög víða við enda er það eðli pólitískrar umræðu af þessu tagi að koma mjög víða að málum. Það er full ástæða fyrir okkur sem þing og þjóð að eiga vettvang eins og þennan þar sem hinir pólitískt kjörnu fulltrúar geta tjáð skoðanir sínar milliliðalaust, litlar þjóðir jafnt sem stórar, og því er þetta að mínu mati ómetanlegur vettvangur til að láta rödd okkar heyrast á alþjóðlegum vettvangi.