133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir að við eigum ekki að sýna plagginu þar sem listuð eru stuðningsríki við innrásina í Írak þá virðingu að það öðlist lögformlegt gildi, við eigum ekki að ræða það öllu meira hér á þinginu svo að það öðlist ekki lögformlegt gildi, Framsóknarflokkurinn ætli núna um helgina að segjast vera andvígur því að við vorum sett á þennan lista. Ætlar Framsóknarflokkurinn að ganga lengra og lýsa andstöðu við Íraksstríðið, andstöðu við ólöglega árás Bandaríkjamanna á Írak? Ég bíð eftir að heyra inntak þessarar ályktunar Framsóknarflokksins. Verða þetta bara orðin tóm, einhver tilraun til að fegra ímyndina, eða ætlar flokkurinn að lýsa andstöðu við þetta andstyggilega árásarstríð sem hefur leitt af sér dauða og hörmungar?

Við ræðum tillögu til þingsályktunar sem sameinuð stjórnarandstaðan stendur að. Við óskum eftir því að Ísland verði með formlegum hætti tekið út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og að því verði lýst yfir að stuðningurinn við þetta stríð hafi verið misráðinn.

Árásin á Írak var fyrir það fyrsta ólögleg samkvæmt alþjóðalögum. Í öðru lagi stríddi hún gegn íslenskum lögum því að ekki var haft lögbundið samráð við Alþingi og í þriðja lagi stríðir það gegn hugmyndum okkar um lýðræði að lýsa yfir stuðningi við stríð sem margoft hefur komið fram að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur.

Menn bera það fyrir sig að þeir hafi verið blekktir, þeir hafi verið leiksoppar Bandaríkjamanna og jafnvel Breta. Ég bið menn að hugsa nokkur ár til baka. Í upphafi ársins 2003, þess árs þegar árásin var gerð á Írak um vorið, flutti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til þingsályktunar þar sem við hvöttum til þess að ríkisstjórninni yrði falið að koma þeirri afstöðu á framfæri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem því yrði komið við að innrás í Írak yrði afstýrt og vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna gefinn nægur tími til að ljúka störfum sínum. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Komi til hernaðaraðgerða gegn Írak á næstu mánuðum skal Ísland tilkynna að ekki verði heimiluð afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði né verði um neins konar þátttöku að ræða af Íslands hálfu í slíkum aðgerðum.“

Það mátti hvert barn vita hvað í vændum var. Nánast allan 10. áratuginn hafði írakska þjóðin verið beitt viðskiptaþvingunum sem höfðu murkað lífið úr hundruðum þúsunda manna. Það er talið að á milli hálf og ein milljón barna hafi dáið af völdum þessara viðskiptaþvingana. Margoft fóru fram umræður um það í þessum þingsal hvort Íslendingar ættu ekki að segja sig frá þvingununum og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum margoft fram þingmál þessa efnis. Því var haldið fram á móti og í aðdraganda innrásarinnar í Írak að þrennt réttlætti innrás: í landinu sæti harðstjórn, í landinu væru gereyðingarvopn og þar væru einnig hryðjuverkamenn sem herjuðu á okkar hluta heimsins.

Eitt var rétt í þessari upptalningu, í landinu sat ógnarstjórn. Írak hefur verið stýrt af ógnarstjórn allar götur frá því að ríkið var sett á fót af Bretum snemma á 3. áratug síðustu aldar. Þá var þar búið til konungsríki, konungur sóttur til grannríkis, og síðan gekk á með stjórnarbyltingum og blóðsúthellingum þar til Baath-flokkurinn hrifsaði til sín völdin að undirlagi og með stuðningi leyniþjónustu Bandaríkjanna árið 1963. Á sama tíma er gerð bylting í Íran, einnig að undirlagi Bandaríkjamanna, en þá er Mohammed Reza Pahlavi komið til valda þar í landi. Og til að rifja upp afskipti Vesturlandamanna af þessum heimshluta má geta þess, sem reyndar hefur margoft komið fram í fjölmiðlum og kom fram í fjölmiðlum áður en innrásin var gerð, að margir helstu ráðamenn í stjórn Bush Bandaríkjaforseta, Cheney, Richard Pearl, Jeb Bush, bróðir núverandi forseta, og fleiri höfðu ritað þáverandi Bandaríkjaforseta bréf, það var árið 1998, þar sem þeir hvöttu til innrásar í Írak til verndar bandarískum olíuhagsmunum. Allt þetta var á vitorði allra þeirra manna sem vildu kynna sér málavöxtu. Þetta var rætt í þinginu, þetta var rætt í þjóðfélaginu, þetta var rætt í alþjóðapressunni og í ofanálag skulum við minnast þess að vopnaeftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna eða sá sem fór fyrir þeirri sveit óskaði aftur og ítrekað eftir því að ekki yrði ráðist á landið, heldur yrði þeim gefið meira svigrúm til vopnaleitar. Síðar hefur hann sagt að hann hafi látið þau boð út ganga að litlar líkur væru á að slík vopn fyndust. Allt þetta var í umræðunni á þessum tíma.

Síðan koma hér fulltrúar Framsóknarflokksins og segjast hafa verið blekktir, þeir hafi verið leiksoppar. Aumingja vesalings Framsókn var blekkt og hún ætlar að gera það eitt nú um helgina að segja að hún hafi ekki viljandi farið inn á þennan lista Bandaríkjamanna um hinar viljugu þjóðir, hann hafi ekkert gildi. Þessi listi hafði gildi á sínum tíma vegna þess að hann var notaður til að réttlæta árásina og hann hefur verið notaður þannig allar götur síðan. (Forseti hringir.) Núna skiptir hann hins vegar afskaplega litlu máli og þá fyrst skríður (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn út úr greninu. En ætlar flokkurinn að lýsa andstöðu við Íraksstríðið og veru Bandaríkjamanna í Írak? (Forseti hringir.) Við bíðum eftir að heyra það núna um helgina.

(Forseti (SAÞ): Forseti biður hv. þingmann að gæta þingskapa um ræðutíma.)