136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

fjárhagsvandi heimila.

297. mál
[14:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helga Sigrún Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir skýr og skelegg svör og verð að taka undir hól til hennar eins og aðrir þátttakendur í þessari umræðu í dag, ég sé að hún er með hausinn á réttum stað. Ég vil samt hvetja til þess að leitað verði fanga víðar því að þó að tilteknir hópar samfélagsins geti verið varnarlausari en aðrir er full ástæða til að hafa augun opin fyrir því sem kalla má venjulegt fólk sem alla tíð hefur verið ágætlega sett, hefur ekki þurft að njóta neinnar minnihlutaverndar, ég hugsa að flest okkar þekki slíkar fjölskyldur sem hafa alla tíð unnið fyrir sínu og komist af í kyrrþey með dugnaði og eljusemi. Upplýsingaöflun þarf að fara fram í öllu samfélaginu því að efnahagsástandið gerir ekki mannamun. Það eru líka stórir hópar í samfélaginu sem aldrei hafa leitað sér aðstoðar, kunna það ekki og gæti þótt það tiltökumál. Það tengist sjálfsmynd fólks og venjum og hefðum í fjölskyldum. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til þess að hafa þennan hóp í huga vegna þess að leiði upplýsingaöflun það í ljós að þessi hópur leynist einhvers staðar í samfélaginu og gæti flokkast sem nýr, þ.e. hópur sem hefur ekki verið skjólstæðingar félagslega kerfisins, þá tel ég fulla ástæðu til að minna á að möskvastærð öryggisnetsins þarf að henta öllum sem á þurfa að halda og hana gæti þurft að sérsmíða í einhverjum tilvikum.