138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

landbúnaður og aðildarumsókn að ESB.

[15:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns hef ég þegar svarað henni. Þingið ræður sjálft hvað það gerir. Það var Alþingi Íslendinga sem samþykkti að í þetta ferli yrði farið. Það var Alþingi sem fól framkvæmdarvaldinu að sækja um á grundvelli ákveðins álits sem birtist í meiri hluta greinargerð utanríkismálanefndar (Gripið fram í.) og til að leggja síðan það sem út úr því ferli kæmi í dóm þjóðarinnar. Þjóðin mun að lokum ráða. Það er enginn sem bannar hv. þingmanni að leggja fram tillögu um að stöðva þetta ferli. Þingið ræður, það er ekkert flóknara en það. Á meðan þessi samþykkt er virk, og ég hef enga ástæðu til að ætla að hún verði það ekki þangað til ferlið rennur til enda, mun ég auðvitað reyna að vinna hag Íslands eins og hægt er í krafti hennar. (Gripið fram í.)

Að því er varðar síðan hag íslensks landbúnaðar í framtíðinni hef ég fulla trú á því að hann muni standa sig vel innan Evrópusambandsins. Ég held meira að segja að hægt sé að færa rök að því, eins og reyndar var gert af ýmsum sem töluðu fyrir bændur fyrir nokkrum árum, að það gæti verið ákveðið skjól af Evrópusambandinu fyrir landbúnaðinn miðað við þær breytingar sem hugsanlegt er að eigi sér stað á næstu árum vegna ákvarðana á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég tel að hefðbundinn landbúnaður eins og sauðfjárrækt muni koma ívið betur út innan en utan sambandsins. Ég geri mér vonir um að það náist samningar sem eru þannig að mjólkuriðnaðurinn standi ekki verr en hann gerir í dag. Ég tel sömuleiðis að það hafi komið fram að ýmiss konar ræktun grænmetis standist þá áraun sem þetta verður en auðvitað verður þetta erfitt. Þess vegna er það okkar skylda að reyna að ná samningum sem verja landbúnaðinn eins og hægt er.