140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

hækkun kostnaðarhlutdeildar lífeyrisþega, öryrkja og barna vegna sjúkraþjálfunar.

628. mál
[17:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. velferðarráðherra um kostnaðarhlutdeild ríkisins í sjúkratryggingum, nánar tiltekið í sjúkraþjálfun. Við þekkjum að greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustunni er mjög flókið, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þegar við sjálfstæðismenn vorum í ríkisstjórn með Samfylkingunni var eitt af því sem við lögðum áherslu á að endurskoða greiðsluþátttökukerfið í heilbrigðisþjónustunni með það að markmiði að halda kostnaði notenda hennar niðri og setja þak á kostnaðinn til að létta undir með þeim sem mest þurfa á þjónustunni að halda.

Sá sem stýrði þeirri vinnu með miklum myndarbrag var hv. þm. Pétur Blöndal. Lítið hefur frést af málinu frá því að hann sleppti hendinni af því og tel ég það vera miður en ég ætla ekki að ræða það sérstaklega hér.

Það vekur athygli þegar við horfum á breytingarnar sem gerðar voru um síðustu áramót að þeir sem fá mestu hækkunina, bæði hlutfallslega og mér sýnist líka í krónum, eru aldraðir og lífeyrisþegar með óskerta tekjutengingu og síðan börn og unglingar. Almennir sjúklingar og aldraðir fá minni hækkun, lífeyrisþegar án tekjutryggingar fá ekki neina hækkun og stundum fá almennir sjúklingar ekki neina hækkun, núll. Nú gæti einhver sagt að þetta séu ekki háar upphæðir en þetta eru háar upphæðir fyrir króníska sjúklinga sem þurfa að fara einu sinni eða jafnvel oftar í viku í sjúkraþjálfun.

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvað er á ferðinni. Hvers vegna er mesta hækkunin hjá þeim lífeyrisþegum sem eru með óskerta tekjutryggingu og hafa minnstar tekjur annars staðar frá, aldraðir og börn og unglinga? Af hverju eru það þeir sem fá mestu hækkunina? Af hverju er öðrum, eins og til dæmis almennum sjúklingum, sleppt sem þurfa oft og tíðum þjónustu í kannski mjög skamman tíma og þurfa minna á þjónustunni að halda, þótt ég geri ekki lítið úr því? Þess vegna eru þessar spurningar lagðar fram, virðulegi forseti:

1. Hvaða ástæður búa að baki hækkun kostnaðarhlutdeildar lífeyrisþega, öryrkja og barna vegna sjúkraþjálfunar umfram verðlagshækkanir, samanber reglugerð nr. 1186/2011 um breytingu á reglugerð nr. 721/2009 um þjálfun sem sjúkratryggingar taka til og hlutdeild sjúkratrygginga í kostnaði við þjálfun?

2. Hvers vegna er hlutfallshækkun greiðslna lífeyrisþega, öryrkja og barna hærri en annarra samkvæmt þessum breytingum?