150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Það er vissulega margt á þessum lista sem við höfum séð sem og í þessari þingsályktunartillögu. Ég kem kannski að því í ræðu minni á eftir. Þetta eru samt ekki allt framkvæmdir. Sumt af þessu varðar einhverjar fjárfestingar sem ég get ekki séð að skapi neitt sérstaklega mörg störf þó að sjómælingadufl séu keypt og endurnýjuð. Það er rangt að segja að þetta sé stórkostlegur framkvæmdapakki þegar svona hlutir eru inni. Þetta er ágætt, það er rétt, en við höfum séð stærri aðgerðir þegar kemur að efnahagsmálum og förum kannski yfir það síðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort mat hafi verið lagt á það hversu mörg störf verði til við þessar aðgerðir og hvar þau verði til. Verða þau til í einkageiranum eða verða þau til hjá ríkinu? Hvert er hlutfallið? Hefur þetta verið skoðað? Var lagt mat á þetta? Það skiptir máli þegar við erum að fara í svona pakka að menn geri sér grein fyrir því hversu mikið stendur eftir.