Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

framboð á fjarnámi.

634. mál
[19:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að koma hér í þriðja sinn í vetur og ræða við mig um fjarnám á háskólastigi. Almenn færni í notkun stafrænnar miðlunar, fjarvinnu og fjarkennslu hefur tekið stökkbreytingum síðustu ár. Tæknin hefur líka þróast hratt og allt viðmót batnað. En hvernig ætlum við að nýta okkur þetta til að tryggja aðgang að námi óháð aðstæðum einstaklinga og til að tryggja samfélögunum aðgang að nauðsynlegri þekkingu? Við getum gert miklu betur en við erum að gera í dag. Aðgangur að námi hefur bein áhrif á tækifæri einstaklinga og jafnrétti til náms en í dag vil ég beina sjónum sérstaklega að þeim almannahagsmunum sem felast í því að nauðsynleg þekking sé til staðar í samfélögum og byggðum um allt land.

Það eru hagsmunir einstakra byggða og samfélagsins alls að hægt sé að veita þjónustu þar sem hennar er þörf. Þarna hef ég m.a. í huga nám í greinum sem tryggja þjónustu við börn og fjölskyldur, gjarnan nám til starfsréttinda sem byggir ofan á grunnnám á háskólastigi, eins og t.d. nám í talmeinafræði, ljósmæðrafræði, master í sálfræði eða félagsráðgjafa til starfsréttinda; nám sem gjarnan er sótt af fólki sem búið er að koma sér fyrir með fjölskyldu í samfélagi þar sem það hyggst búa næstu árin. Hvers vegna erum við ekki komin lengra? Telur ráðherra að skilgreina ætti ákveðnar námsgreinar þar sem sérstök áhersla yrði lögð á framboð á fjarnámi í ljósi þess að tiltekna þekkingu og þjónustu skortir í landsbyggðunum, t.d. til að uppfylla kröfur ríkisins um þjónustu við börn og fjölskyldur? Og ef svo er, hvenær hyggst ráðherra hefja þá vinnu og með hvaða hætti?

Í haust lagði ég ásamt fleirum enn og aftur fram tillögu til þingsályktunar um fjarnám á háskólastigi og nýlega mælti ég fyrir þessari tillögu. Þar er lagt til að skipaður verði starfshópur til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta. Í tillögunni er lögð áhersla á að íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta, bæði til að auka aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemendur stunda námið innan veggja háskólanna eða í fjarnámi. Með öðrum orðum; að tæknin verði alltaf notuð til að tryggja að nám sé gott og aðgengilegt. Þá er lögð áhersla á að hægt sé að stunda allt nám sem fjarnám nema það sé eitthvað sem sérstaklega mælir á móti því. Á engan hátt er þó verið að draga úr mikilvægi staðnáms og samskipta. Þrátt fyrir framfarir í tækni og ítrekaðar tillögur um aukið fjarnám er enn þá allt of langt í land með að allt nám verði í boði stafrænt. En vissulega sjást framfarir eins og sjá má í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur.