131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Eignarhald á Hótel Sögu og fleiri fyrirtækjum.

[15:27]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamsalan í Reykjavík eru ekki sjálfseignarstofnanir. Þetta eru fyrirtæki í eigu bænda samtíðarinnar og um þau hefur verið farið lögfræðilega þannig að þetta eru fyrirtæki í eign bændanna og eru samvinnufyrirtæki rekin undir þeim formerkjum og þeim lögum. Bændurnir eiga þessi fyrirtæki alfarið og ég vona að hv. þm. Pétur H. Blöndal sem virðir eignarréttinn og vill að menn séu ríkir öfundist ekki yfir því þó að einhver fyrirtæki sem bændurnir eiga séu vel stæð. Þetta hafa verið mjög öflug fyrirtæki í þróun og markaðssetningu og í þjónustu við neytendur, þau hafa verið vel rekin og eru bændunum í dag mikilvægari en fyrr.

Þau hafa þjónað neytendum afar vel þannig að bændurnir fara einnig með þetta mál. Við skulum virða það.